Allir verði að greiða fyrir þátttöku eða fyrir notkun á vegakerfinu
Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2024 sem kynnt voru á fréttamannafundi í morgun í fjármálaráðuneytinu er gert er ráð fyrir aukinni gjaldtöku af rafbílum. Innleitt verður nýtt tekjuöflunarkerfi í tveimur áföngum. Fjármálaráðherra gat þess í kynningu frumvarpsins að gefið hafi verið of mikið eftir af heildartekjum vegna rafbíla. Það kom fram í máli fjármálaráðherra að áfram verði samt hagkvæmara að eiga rafbíl.
Fjármálaráðherra sagði ennfremur að í gildi hafa verið fram að þessu ívilnanir fyrir umhverfisvæna bíla og við höfum séð orkuskiptin eiga sér stað, sérstaklega fyrir heimilin í landinu og mörg fyrirtæki. Bjarni sagði að þessar ívilnanir voru skynsamlegar til þess að fá breytinguna af stað en augljóst er að þegar upp er staðið þá verða allir að greiða fyrir þátttöku eða fyrir notkun á vegakerfinu og við erum að stíga ákveðin skref á næsta ári þar sem rafbílar munu fara að greiða fyrir notkun á vegakerfinu.
Rafmagnsbifreiðar taki þátt í að greiða gjald fyrir notkun á vegakerfinu
,,Um næstu áramót verða stigin frekari skref og í grunninn finnst okkur orðið tímabært að rafmagnsbifreiðar taki þátt í að greiða gjald fyrir notkun á vegakerfinu. Um þetta verður sérstaklega fjallað í sérstöku frumvarpi sem kemur fram á haustmánuðum. Augljóst sé að þessar miklu ívilnanir, sem hafa verið í gangi fyrir orkuskipti í umferðinni, hafa svo sannarlega skilað árangri og tölurnar bera þess merki. Ef við ætlum að setja aukna fjármuni í viðhald og uppbyggingu á stofnum vegum á Íslandi þarf að auka tekjurnar,“ sagði fjármálaráðherra á kynningunni í morgun.
Ætlað að auka tekjur ríkissjóðs um 7,5 milljarða árið
Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að nýju heildarkerfi fyrir skattlagningu á ökutæki og eldsneyti sé ætlað að auka tekjur ríkissjóðs um 7,5 milljarða árið 2024. Tekjur ríkissjóðs af þeirri skattlagningu hafi rýrnað mikið á undanförnum árum samhliða breytingum á bílaflota landsmanna.
Greiðslur bifreiðaeigenda verða tengdar notkun þeirra á vegakerfinu
„Til að bregðast við þeirri þróun verður um áramótin komið á nýju, einföldu og sanngjarnara kerfi þar sem greiðslur bifreiðaeigenda verða í auknum mæli tengdar notkun þeirra á vegakerfinu auk þess sem að lágmark bifreiðagjalds verður hækkað,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.