Allsherjarþing SÞ samþykkti umferðaröryggisáætlun FiA

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær að helga áratuginn 2011-2020 baráttu gegn umferðarslysum í heiminum. Frumkvæði að þessari aðgerðaáætlun hafði  FiA, heimssamtök bifreiðaeigendafélaga og bílaíþrótta. Einkunnarorð aðgerðaáætlunarinnar er Gerum vegina örugga (Make Roads Safe). Framkvæmdastjóri átaksins er Lord Robertson fyrrum utanríkisráðherra Bretlands og síðar framkvæmdastjóri NATO. Meðal helstu talsmanna átaksins eru Michael Schumacher og kvikmyndaleikararnir Michelle Yeoh og Michael Palin. FÍB er virkur þátttakandi í átakinu m.a. með því að innleiða EuroRAP vegrýni á Íslandi og nú nýlega í Tansaníu. Höfuðtilgangurinn með EuroRAP er einmitt sá að finna og skilgreina hættustaði í vegakerfinu og benda á leiðir til úrbóta.

http://www.fib.is/myndir/Michelleyeoh.jpg
Michelle Yeoh.
http://www.fib.is/myndir/LordRobertson.jpg
Lord Robertson.

Umferðarslys þar sem fólk slasast, örkumlast og deyr, er gríðarlegt heilsufarslegt vandamál og verst er það í þróunarríkjunum þar sem það fer hraðvaxandi ef fram fer sem horfir. Takist ekki að stemma stigu við þessum slysum og hamla vesti vandans er talið vera tómt mál að tala um batnandi lífskjör í þessum löndum. Vandinn er því ekki bara vandi þróunarríkjanna heldur alls heimsins og samþykkt SÞ í gær er í raun staðfesting þess.

Á hverju einasta ári ferst 1.3 milljón manns í umferðarslysum í heiminum og um 90 prósent dauðaslysanna eiga sér stað í þróunarríkjunum. Ef ekkert verður að gert mun þessi dánartala vaxa mjög, jafnvel um helming að því talið er og afleiðingar þess yrðu hrikalegar fyrir alla heimsbyggðina.

Hugmyndin að áratugs heimsátakinu gegn umferðardauðanum fæddist hjá FiA og fyrrverandi forseta samtakanna, Max Mosley, í tengslum við átakið Make Roads Safe. Ekki var látið sitja við orðin tóm heldur hafist handa við að vinna hugmyndinni brautargengi meðal stjórnmálamanna og valdamanna um allan heim, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samþykkt allsherjarþingsins í gær markar mikil tímamót því með henni verður auðveldara að sameina krafta stjórnvalda, opinberra aðila, frjálsra félagasamtaka og einstaklinga að einu markmiði, sem er það að forða á næstu tíu árum minnst fimm milljónum manna frá dauða og 50 milljónum manns frá því að slasast alvarlega og örkumlast fyrir lífstíð.

Michelle Yeoh ávarpaði allsherjarþingið í gær fyrir hönd FiA, áður en atkvæðagreiðslan fór fram. Hún sagði m.a. þetta: „Á hverjum einasta degi að slasast alvarlega eða deyja í umferðarslysum heimsins minnst tvö þúsund börn á skólaaldri. Allar spár benda til þess að þessi tala muni tvöfaldast á næstu tiu árum verði ekkert að gert. Það er því skilyrðislaust forgangsmál næsta áratugar að setja umferðaröryggismál efst á forgangslistann. Með því móti eigum við þess kost að bjarga milljónum mannslífa og forða tugum milljóna frá því að slasast og örkumlast. Þessi aðgerðaáætlun fyrir næsta áratug er það verkfæri sem mun duga til að snúa óheillaþróuninni til betri vegar,“ sagði Michelle Yeoh.

Lord Robertson framkvæmdastjóri Make Roads Safe ávarpaði einnig allsherjarþingið og sagði að nú loks hefðu augu alþjóðasamfélagsins opnast fyrir því hverskonar drepsótt umferðarslysin væru. „Nú verður það hlutverk okkar að fylgja eftir vilja SÞ og ráðast gegn umferðardauðanum í þróunarríkjunum. „Árangur áratugs aðgerða gegn umferðardauðanum verður mældur í þeim mannslífum sem bjargast,“ sagði Lord Robertson.