Allt að 270 prósent verðmunur
Innkoma Costco á íslenska markaðinn hefur haft mikil áhrif á vöruverð. FÍB hefur áður gert verðkönnun á nokkrum bílavörum, frá sama framleiðanda, annars vegar hjá Costco og hins vegar hjá öðrum rótgrónum íslenskum verslunarfyrirtækjum. Hér undir er samanburður á verði einnar vöru sem margir þekkja eða WD-40 í 450 ml spreybrúsa með strái. Eftir helgi mun FÍB upplýsa um verðsamanburð á fleiri bílavörum.
Hér undir er mynd sem sýnir verð á WD-40 fjölnota ryðolíu. Costco selur WD-40 í pakkningu sem inniheldur þrjá 450 ml spreybrúsa á 1.679,- krónur. Það gerir 560 krónur á hvern brúsa. Einn WD-40, 450 ml, spreybrúsi kostar 1.490.- krónur hjá Heimkaupum, 1.679,- hjá Húsasmiðjunni, 1.795.- hjá N1 og loks 2.069,- krónur hjá Olís.
Ljóst er að hér er um að ræða gífurlegan verðmun. Vissulega er Costco að bjóða þrjá brúsa saman en samt eru tvö samkeppnisfyrirtæki að bjóða stakan brúsa á hærra verði en þrír kosta hjá Costco. Hjá Olís, sem er með hæsta verðið, er stakur WD-40 brúsi 23% dýrari en þrir hjá Costco. Miðað við verð á stökum brúsa þá er verðmunurinn frá 166% upp í tæplega 270%.
Til að njóta þessara kjara hjá Costco kostar ársaðild fyrir einstaklinga 4.800 krónur en fyrirtækjaaðild kostar 3.800 fyrir árið.
Hér að neðan geta bifreiðaeigendur séð niðurstöðuna í samanburðinum sem gerður var.