Alþjóðleg ökuskírteini skylda fyrir erlenda ökumenn í Florida
Alþjóðasamtök bifreiðaeigenda, FIA, hafa fengið eftirfarandi tilkynningu frá yfirvöldum í Florida fylki í Bandaríkjunum.
Samkvæmt breytingu á kafla 322.04 í lögum Florida sem tók gildi 1. janúar 2013 verða allir ökumenn sem ætla að aka í Florida að vera með alþjóðlegt ökuskírteini (International Drivers Permit - IDP) samhliða sínu eigin ökuskírteini ef þeir eru ekki handhafar Florida ökuskírteinis. Þetta gildir um öll ökutæki, þar á meðal bílaleigubíla. Alþjóðlega ökuskírteinið verður að vera útgefið þar sem ökumaður á lögheimili.
Yfirvöld í Florida sega að tilgangurinn með þessum breytingum sé að auðvelda lögreglunni að eiga samskipti og hafa afskipti af ökumönnum með erlend ökuskírteini. Kirsten Olsen-Doolan talsmaður Florida Department of Highway Safety and Motor Vehicles, sem er Umferðarstofa Florida, segir að erlendir ökumenn verði að hafa alþjóðlegt ökuskírteini við akstur í Florida.
Það er lögbrot í Florida að aka bíl án þess að hafa alþjóðlegt (IDP) eða Florida ökuskírteini. Lögregla getur fært ökumann sem hún stöðvar án fullnægjandi ökuskírteinis í fangageymslur eða stefnt honum til að svara til saka í dómssal fyrir dómara.