Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa 20. nóvember
Sunnudaginn 20. nóvember er alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Dagurinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun.
Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á öryggi óvarinna vegfarenda. Einnig verður lögð áhersla á aðhlynningu þeirra sem verða valdir að umferðarslysum.
Nú sem fyrr kemur Samgöngustofa að undirbúningi þessa dags, þeirra athafna sem haldnar verða víða um land og miðlun efnis til fjölmiðla. Þær umfjallanar eru helst reynslusögur sem við höfum komið á framfæri og það sem einkennir þær núna í ár er að þarna segja ökumenn sem hafa orðið valdir að banaslysum sögu sína. Slíkar umfjallanir og umræða er mjög mikilvægur þáttur í þeim forvörnum sem við og fleiri vinnum stöðugt að. Á vefnum okkar er síða sem tileinkuð er minningardeginum og þar er hægt að nálgast allar upplýsingar, t.d. dagskrá dagsins víða um land.
Haldin verður athöfn kl. 14:00 þennan dag á þyrlupallinum við Landspítalann Fossvogi. Hér má sjá nánari upplýsingar um minningardaginn og hér að neðan er dagskrá athafnarinnar í Reykjavík.
13:45 Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir
13:45 til 14:00 þátttakendur safnast saman við þyrlupallinn og stilla upp farartækjum og fólki
14:00 Minningarathöfnin sett – Ragnhildur Hjaltadóttir
14:05 Ráðherra heldur ræðu
14:15 Forseti Íslands heldur ræðu
14:25 Ræðumaður dagsins segir reynslusögu sína
14:35 Formlegri athöfn slitið
14:35 Boðið upp á kaffi, kakó og með því
14:35 Forseti Íslands færir starfsfólki Bráðamóttökunnar veitingar – þakklætisvott.
14:40 Myndataka – viðbragðsaðilar ásamt forseta framan við ökutæki og þyrlu LHG.
14:40 Viðvera og ýmis frágangsatriði
Að undirbúningi minningardagsins standa ásamt Samgöngustofu innanríkisráðuneytið, Landsbjörg, lögreglan, Sjálfsbjörg og Vegagerðin. Auk þess taka þátt í þessu með okkur Landhelgisgæslan, Landsamband slökkviliðsmanna og bráðaliða, Landspítalinn, Neyðarlínan, rannsóknarnefnd samgönguslysa og Rauði krossinn. Þarna koma saman viðbragðsaðilar, aðstandendur og aðrir gestir.