Alvöru jeppi
Það er ekki lengur um margt að velja fyrir þá sem vilja eignast nýjan alvöru jeppa á viðráðanlegu verði, byggðan upp á gamla mátann á sterkri stálgrind með heilum hásingum, millikassa til að tengja inn framhjóladrifið og með háu og lágu drifi. Nú býður rússneska bílaverksmiðjan UAZ upp á einn slíkan og Rússarnir byrjaðir að þreifa fyrir sér með hann á evrópskum bílamarkaði. Innflutnings- og sölufyrirtæki er tekið til starfa í Tékklandi og evrópsk gerðarviðurkenning sögð í höfn.
Þessi nýjasti Rússajeppi nefnist UAZ Hunter og er hreinræktaður jeppi og þykist ekki vera annað en sterkbyggt og hrátt torfærutæki. UAZ Hunter er eiginlega uppfærður UAZ 469 herjeppi frá byrjun áttunda áratugarins. UAZ verksmiðjurnar eru í bænum Ulyanovski á bökkum Volgufljóts um þúsund km austur af Moskvu. Bærinn hét áður Simbirsk og þar fæddist maður að nafni Vladimir Iljitsj Ulyanov sem frægur varð síðar undir nafninu Lenín, svo frægur að bærinn fékk sitt núverandi nafn eftir honum.
UAZ Hunter er með heilum drifhásingum að aftan og framan. Gormafjöðrun er að framan ásamt diskahemlum en blaðfjaðrir að aftanverðu og skálabremsur. Tvenns konar vélar eru í boði; 2,7 128 ha, bensínvél eða 2,2 l 114 ha dísilvéll Við báðar er 5 gíra gírkassi. Niðurfærsla millikassans milli lága- og háadrifsins er 1:2,542. Heildarlengd jeppans er 4,1 m, breiddin (án spegla) 1,73 m, lengd milli hjólamiðja er 2,38 m og sporvídd að framan og aftan er 1,465 m. Drifkúlurnar eru lægstu punktar bílsins. Hæð undir þeim er 21 sm og uppgefin vaðdýpt í vatni er hálfur metri. Eigin þyngd með bensínvélinni er 1.845 kg og 1.890 á dísilbílnum. Uppgefin hleðsluþyngd er 675 kg (bensín) og 660 kg (dísil). Uppgefinn hámarkshraði með bensínvél 150 k/klst. en 135 km/klst. með dísilvélinni. Hjólbarðastærðin er 225/75 R16.