Ályktanir á landsþingi FÍB
Á landsþingi FÍB, sem haldið var á Hótel Nordica 6. maí, voru eftirfarandi ályktanir samþykktar.
Landsþing FÍB haldið 6. maí á Hótel Hilton Reykjavík hvetur stjórnvöld að koma til móts við fjölskyldur og fyrirtæki í landinu með því að lækka skatta, allavega tímabundið, á bifreiðaeldsneyti. FÍB hefur nú þegar lagt það til að stjórnvöld bregðist við hækkununum. Mörg Evrópulönd hafa farið þessa leið að lækka tímabundið álögur á eldsneyti til að koma til móts við almenning. Eldsneytisverð er í hæstu hæðum um þessar mundir sem rekja má að stórum hluta til stríðsástandsins í Úkraínu.
Landsþing FÍB haldið 6. maí á Hótel Hilton Reykjavík mótmælir hugmyndum um að fjármagna samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu að stórum hluta með nýjum sköttum á fólksbíla. Þessi fjármögnun er óútfærð en hugmyndir hafa verið uppi um setja vegtollahlið um allt höfuðborgarsvæðið. Vegtollar eru mjög dýr leið til að hafa tekjur af umferð. Vegtollar mismuna vegfarendum eftir búsetu og ferðartilgangi og leggjast þyngst á þá sem hafa minna aflögu.
Landsþing FÍB haldið 6. maí á Hótel Hilton Reykjavík fagnar yfrilýsingu ríkis og borgar um Sundabraut. Leitun er að arðsamari framkvæmd hér á landi. Þjóðhagslegur ábati áætlaður á 30 ára tímabili á bilinu 186-236 ma.kr.
Landsþing FÍB haldið 6. maí á Hótel Hilton hvetur stjórnvöld til að innleiða nýjar reglur um vátryggingarstarfsemi sem banna verðmismun á milli nýrra og eldri viðskiptavina. Með þessu móti er tryggt að nýir og gamlir viðskiptavinir, sem falla í sama áhættuflokk, greiði algerlega sambærileg verð.
Landsþing FÍB haldið 6. maí á Hótel Hilton Reykjavík gagnrýnir þá takmörkuðu verðsamkeppni sem ríkir í fáokunarumhverfi tryggingafélaganna. FÍB telur æskilegt að skylda tryggingafélögin til að birta opnar iðgjaldareiknivélar á vefsíðum sínum. Með því eykst verðvitund neytenda og fólk á hægara með að gera verðsamanburð. Tæknin er fyrir hendi, svo og forsendurnar sem tryggingafélögin nota við útreikning iðgjalda. Á það má benda að flest félaganna gefa viðskiptavinum nú þegar færi á að fylla inn upplýsingar á vefsíðum sínum til að fá sjálfvirkt tilboð í tryggingar. Það eina sem þau þurfa að gera er að opna fyrir þá hindrun að verðupplýsingar miðist aðeins við tiltekinn einstakling eða fyrirtæki.