Amerískir bændur veðja á etanól

http://www.fib.is/myndir/Ethanol-daela.jpg


Bensín hefur sjaldan eða aldrei verið dýrara í Bandaríkjunum en nú og kostar gallonið rúma 3 dollara og ekki útlit fyrir að það lækki nokkru sinni heldur þvert á móti hækki. Þótt okkur hér á Íslandi þyki kannski ekki mikið að greiða í kring um 56 krónur fyrir lítrann þá er Bandaríkjamönnum nóg boðið.

En í þessu ástandi sjá bandarískir bændur, einkanlega þó kornbændur í Iowa, sér leik á borði að framleiða etanól, eða spíra í stórum stíl. Og hversvegna það? spyr nú einhver kannski og svarið er að spírinn er ágætis íblöndunarefni í bensín og getur jafnvel dugað óblandaður sem bílaeldsneyti í stað bensínsins rándýra.

Síhækkandi bensínverð hefur stóraukið eftirspurn eftir etanóli í heiminum og margir og sífellt fleiri bílaframleiðendur byggja nú bíla sína þannig að þeir geti gengið á etanóli. Í Iowa fer um það bil 25% af kornrækt í Bandaríkjunum fram og hálmurinn - stilkar og blöð kornplantnanna er ágætis hráefni til að framleiða etanólið úr. Það er því varla tilviljun að 22 etanólframleiðslustöðvar eru þegar í fullum gangi í ríkinu, verið er að reisa sjö til viðbótar og áætlanir um byggingu 20 til viðbótar eru tilbúnar.

Síðustu tvö ár hefur eftirpurn eftir etanóli í heiminum fjórfaldast og búist er við að hún muni enn tvöfaldast frá því sem hún er nú fram til ársloka 2007. John Becker er formaður bændasamtakanna í Iowa. Hann segir við Detroit News að það stefni í það að íbúar Iowa verði nokkurskonar olíukóngar miðvesturríkja Bandaríkjanna.

Hin ört vaxandi eftirspurn eftir etanóli hefur leitt til þess að það þykir mjög góð fjárfesting að leggja fé í etanólframleiðslustöðvar og stjórnvöld í Washington líta með velþóknun til þeirra sem það gera því að þeim þykir þjóðarnauðsyn að Bandaríkin verði sem minnst háð olíuinnflutningi.

Af þessum sömu ástæðum er einnig mikill vöxtur í framleiðslu lífrænnar dísilolíu. Hún er unnin úr repju í N. Evrópu en í Bandaríkjunum einkum úr mangroverunna, soyabaunum og fleiru. Þingflokkur Demókrata lagði nýlega fram lagafrumvarp um að draga skuli úr olíuinnflutningi um 40% fram til ársins 2020 og að minnst fjórði hver bíll í umferð aki á etanóli eða lífrænni dísilolíu strax árið 2010.

The image “http://www.fib.is/myndir/Ethanol_fuel_diagram.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Heimsframleiðsla Etanóls hefur aukist um meir en 50% á árabilinu 2001-2005. Um það bil 70% framleiðslunnar fer fram í Brasilíu og Bandaríkjunum. Um það bil 54% hráefnis til Etanólframleiðslu er sykurreyr en 40% er korn og maís og 5% er hráolía. Aðeins um 1% hráefnisins kemur frá skógrækt og trjáiðnaði. Stærsti útflyjandi Etanóls er Brasilía. 20% af brasilísku etanóli fer til Indlands, 18% til Indlands, 12% til S. Kóreu, 9% til Japans og 8% til Svíþjóðar.