Ánægðastir með Subaru

Ný könnun ADAC í Þýskalandi, systurfélags FÍB, sýnir að eigendur Subaru bíla eru ánægðustu bíleigendurnir í þessu mikla bílaríki. Sams konar könnun í Svíþjóð hefur áður sýnt að Svíar eru sama sinnis. Subaru er greinilega í miklu áliti hjá helstu bílaþjóðum Evrópu. 

 ADAC spurði lesendur félagsblaðsins ADAC Motorwelt og alls svöruðu 43.000 lesendur spurningum um hvað þeim fyndist um sjálfan bílinn, um þjónustu umboðsins við kaup á bílnum og um verkstæðis- og viðhaldsþjónustu. Subaru varð í efsta sæti fimmta árið í röð og hæstu einkunn í öllum þáttum könnunarinnar.

 Þessi ánægjukönnun meðal bíleigenda náði að þessu sinni til 35 bílategunda og eins og í fyrra varð Lexus í öðru sæti. Á óvart kom að Mitsubishi skaust upp í þriðja sætið, Honda varð svo í því fjórða og í því fimmta Dacia, sem er ódýrt undirmerki Renault og kemur frá Rúmeníu sem einnig kom á óvart.

 Á óvart kom einnig hversu neðarlega þýsku gæðategundirnar lentu. Af þeim varð BMW efst en náði þó ekki hærra en inn í tíunda sæti og skipar það ásamt Lancia. Audi sést svo fyrst í 16. sætinu og Mercedes Benz í því tuttugasta - einu sæti ofan við Alfa Romeo. Sænsku bílarnir sem lengi hafa þótt góðir bílar áttu heldur ekki sérlega góðu gengi að fagna: Volvo er í sjöunda sætinu og Saab í því tólfta. Þá eru þýskir bíleigendur greinilega ekkert uppveðraðir yfir Volkswagen því að sú tegund er í sjötta sæti neðanfrá. Renault er á botninum með Mini, Chevrolet, Peugeot og Fiat fyrir ofan sig.

 Eðlilega reyna menn að finna skýringar á þessum óvæntu niðurstöðum. Hugsanleg er sú skýring að eigendur bíla í ólíkum verðflokkum geri mismunandi kröfur bæði til bílsins sjálfs og til þjónustunnar við hann. Dæmi um það er kannski Mercedes en verkstæðisþjónusta við Benzann lendir í 17. sæti þrátt fyrir það að sérhæfð Mercedes verkstæði eru ár eftir ár í efstu sætum í könnunum ADAC á gæðum þýskra bílaverkstæða. Kannski finnst Benz-eigendunum að nýir og nýlegir bílar jafn dýrir og vandaðir og Benz, eigi bara ekkert að þurfa á verkstæði.

http://www.fib.is/myndir/Bestu-bilarnir.jpg