..Andlitslyfting á Daciabílum á Parísarsýningunni
Í fréttatilkynningu frá Renault segir að ný-uppfærðir Dacia Sandero, Sandero Stepway, Logan og Logan MCV verði sýndir á bílasýningunni í París sem hefst í lok mánaðarins. Breytingarnar lúti bæði að útliti bílanna og innviðum þeirra. en á meðfylgjandi mynd frá Renault má sjá að útlitsbreytingarnar eru óverulegar og fátt segir í fréttatilkynningunni um það í hverju tækniuppfærslurnar felist umfram það að í stað peruljósa eru komin LED-ljós.
Ekkert er greint frá öðrum tæknilegum uppfærslum bílanna að öðru leyti en frá þeim verði nánar greint á blaðamannafundi Dacia í París kl. 10:45 þann 29. september nk. Fundurinn verði sendur út beint á Fésbókarsíðu Dacia. En útlitsbreytingarnar eru fyrst og fremst smávægilegar breytingar á framendum bílanna og nýju grilli. Þá munu innréttingar hafa verið gerðar þægilegri í umgengni og til íveru og önnur og betri efni notuð í þær en hingað til. Allt er þetta samkvæmt fréttatilkynningunni gert til að koma til móts við óskir kaupenda.
Í París verði því jafnframt fagnað að Daciabílar hafa aldrei áður selst jafn vel og á þessu ári. Eftirspurn í Evrópu, ekki síst í Þýskalandi og Frakklandi hefur aukist jafnt og þétt og biðlistar sums staðar myndast þar sem fólk sækist í vaxandi mæli eftir einföldum bílum. Það eru Dacia bílar vissulega auk þess að vera þeir ódýrustu af sambærilegum bílum sem í boði eru. Ánægjukannanir eins og Auto Index o.fl sýna að það hafi komið mörgum eigendum á þægilega óvart hversu áreiðanlegir og traustir bílarnir reyndust í rekstri og notkun og hve notagildi þeirra var meira en þeir bjuggust við.
Hér á landi hafa einvörðungu tvær gerðir Dacia verið fluttar inn. Þær eru jepplingurinn Dacia Duster og langbakurinn Logan MCV og báðir með sömu Renault dísilvélargerðinni sem er 1,5 rúmsm og 90 ha. Sandero, Sandero Stepway og Logan stallbakurinn hafa ekki verið í boði hingað til a.m.k.
Verðið er sagt verða að mestu óbreytt og áfram það hagstæðasta sem býðst fyrir samgærilega bíla af öðrum tegundum.