Andlitslyfting sem skilaði árangri
20.04.2007
Euro NCAP birti fyrir stundu árekstursprófunarniðurstöður um tvo litla sportlega bíla; Mini Cooper og Peugeot 207CC. Báðum bílum hefur verið breytt frá upphaflegri gerð. Breytingarnar hafa borið þann árangur m.a. að báðir fá ágætiseinkunn í prófinu – fimm stjörnur.
En það er ekki bara bílarnir sem eru breyttir til hins betra heldur hafa verið gerðar breytingar á ásýnd EuroNCAP sem opinberaðar verða þann 8. maí nk. Breytingarnar verða fyrst og fremst sýnilegar á heimasíðu EuroNCAP þar sem neyendur munu á auðveldari hátt en áður geta borið saman árangur einstakra bíla í árekstrarprófunum EuroNCAP.
Með breytingunum á Mini hefur BMW, sem framleiðir Mini hækkað öryggisstaðal þessa smábíls. Sömu sögu er að segja af Peugeot bílnum. Í honum er ekki einungis áhersla á skemmtilega aksturseiginleika heldur líka öryggi þeirra sem í honum ferðast. Í frétt frá EuroNCAP er hins vegar gagnrýnt að öryggi fótgangandi sé fyrir borð borið í báðum þessum bílum.
Árangur beggja bíla í árekstursprófinu má sjá nánar á meðfylgjandi skýringarmyndum. Enn nánari upplýsingar er síðan að finna á heimasíðu EuroNCAP .