Andstæðingur hraðaksturs gómaður fyrir hraðakstur

The image “http://www.fib.is/myndir/Giancarlo_fisichella.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Giancarlo Fisichella fagnar sigri í Ástralíuformúlunni sl sumar.
Formúlu 1 ökumaðurinn hjá Renault, Ítalinn Giancarlo Fisichella missti ökuskírteinið sl. sunnudag fyrir hraðakstur í Rómarborg. Lögregla mældi hann á 148 km hraða á vegi þar sem leyfður er 60 km hámarkshraði. Þetta er neyðarlegt fyrir Fisichella því sex dögum áður hafði hann verið aðalnúmerið í áróðursherferð gegn hraðakstri og götukappakstri sem sérstaklega var beint til ungra ökumanna.
Ítalska fréttastofan ANSA greindi frá því að lögregla hefði stöðvað Fisichella í útjaðri Rómar eftir hraðaksturinn snemma á sunnudagsmorgninum. Sjálfur sagði hann við fréttamann að hann og kona hans hefðu verið að flýta sér heim því barnfóstran hefði hringt í þau hjónin til að segja þeim að sonur þeirra væri með háan hita.
Mánudaginn 14. nóvember sl. birtist grein eftir Fisichella á forsíðu dagblaðsins Gazzetta dello Sport þar sem hann varar ítalska unglinga sterklega við því að stunda hraðakstur og ólöglegan götukappakstur. Greinin birtist í kjölfar þess að 16 ára unglingur lét lífið í árekstri tveggja bíla sem einmitt voru í götukappakstri og á miklum hraða þegar slysið varð.
Fisichella baðst afsökunar á framferði sínu og kvaðst gera sér grein fyrir því að hann hefði gert mistök. „En ég er engu að síður harður talsmaður umferðaröryggis og orð mín um þau efni, þau standa,“ sagði Fisichella.