Árangursrík FÍB-verslunarmannahelgi
02.08.2005
Nýafstaðin verslunarmannahelgi var mjög árangursrík hjá vegaþjónustu félagsins. Mikið var leitað til félagsins og sinntu vegaþjónustu- og vaktfólk félagsins fjölda tilvika. Flest þeirra voru minniháttar, eins og sprungnir hjólbarðar, en nokkur slæm bilanatilvik komu upp. Öll þessi mál leystust fljótt og farsællega.
Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að þétta þjónustunet félagsins um allt land og fjölga þjónustuaðilum sem veita félagsmönnum ýmiskonar þjónustu, þar á meðal forgangsþjónustu og margskonar sérkjör og afslætti. Óhætt er að fullyrða að þjónustunet félagsins hefur aldrei áður verið jafn þéttriðið og bið eftir aðstoð hvar sem er á landinu verið jafn stutt og nú. Það er gleðilegt og ástæða er til að þakka öllum þeim sem lögðu og leggja hönd á plóg svo samborgarar þeirra megi ferðast öruggir um landið.
Að venju kallaði FÍB út liðsauka um verslunarmannahelgina eins og undanfarin 55 ár og að þessu sinni lánaði Hekla hf. félaginu nýja Audi bíla til vegaþjónustunnar. FÍB færir fyrirtækinu og forsvarsmönnum þess, sérstaklega Marinó Björnssyni sölustjóra, bestu þakkir fyrir velvilja þeirra í garð félagsins og bifreiðaeigenda.