Áratugur aðgerða að hefjast

Á morgun, miðvikudaginn 11. maí hefst heimsátak Sameinuðu þjóðanna; Áratugur aðgerða gegn umferðarslysum 2011-2020 eða UN Decade of Action for Road Safety 2011-2020.

Hér á Íslandi verður átakinu ýtt úr vör frá Kirkjusandi í Reykjavík þar sem áður var aðalbækistöð SVR en nú miðstöð ökukennslu. Á blaðamannafundi þar kl 10.30 í fyrramálið munu Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og ýmsir sem að framkvæmd átaksins koma hér á landi sitja fyrir svörum. Þeirra á meðal verða fulltrúar FÍB.

http://www.fib.is/myndir/Todt&Oligris.jpg
Jean Todt forseti FIA kom til Íslands í
mars sl. og hitti m.a. Ólaf Ragnar Gríms-
son forseta Íslands tv. og ræddi við hann
um átakið sem nú er að hefjast.
http://www.fib.is/myndir/Max-bluelag.jpg
Max Mosley fyrrv. forseti FIA og höfund-
ur alþjóðaátaksins UN Decade of Action
for Road Safety 2011-2020. Myndin er
tekin í Bláa lóninu.

Hættuleg umferð er orðin eitt helsta heilbrigðisvandamál þjóða og krefst í dag mannslífa á við skæða faraldurssjúkdóma eins og malaría, og berklar. Umferðarslys eru helsta dánarorsök ungs fólks í heiminum og á hverju ári deyja 1,3 milljónir manns og tífalt fleiri slasast. Fyrirsjáanlegt er að þessi skæði faraldur mun færast í aukana á næstu árum ef ekkert verður aðhafst, sem er óásættanlegt. Það er því megintilgangur átaksins UN Decade of Action for Road Safety 2011-2020 að vinda rækilega ofan af þessari óheillaþróun.

Hér á Íslandi hefur dauðaslysum í umferðinni farið fækkandi undanfarin ár sem er þakkarvert. En á sama tíma hefur slösuðum ekki fækkað að sama skapi. Gegn umferðarslysavánni verður að bregðast með öllum ráðum hér á landi ekki síður en annarsstaðar og það hefur verið markmið FÍB undanfarin ár að stefna markvisst og hiklaust að núllsýn, það er að segja að því að enginn láti lífið í umferðinni og að sem fæstir meiðist og slasist.

Örkuml og dauði er ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur og fórnarkostnaður  nútíma umferðar og hreyfanleika. Með sameiginlegu átaki mun núllsýnin verða að veruleika eins og tekist hefur að lágmarka slys bæði í flugi og á sjó hér á Íslandi.

Að blaðamannafundinum loknum á Kirkjusandi á morgun verður verkefninu hleypt af stokkunum þegar hópur barna, sem hvert um sig er táknrænn fulltrúi eins þeirra mannslífa sem glatast hafa í umferðarslysum á Íslandi á undanförnum áratug, sleppir hvert sinni blöðru með táknmynd átaksins.

Frumkvæði að UN Decade of Action for Road Safety 2011-2020 átti Max Mosley fyrrverandi forseti FIA, heimssamtaka bifreiðaeigenda- og bílasportsklúbba. Mosley og arftaki hans á forsetastóli FIA, Jean Todt og samherjar þeirra hafa barist ötullega fyrir málefninu og komið því svo rækilega á dagskrá að Sameinuðu þjóðirnar hafa nú tekið það upp á sína arma og ekki að ófyrirsynju.

Tvenn íslensk samtök eru aðilar að FIA. Þau eru FÍB og LÍA.