Áreiðanlegustu bílarnir hingað til
Nýjasta áreiðanleikakönnun bandarísku neytendastofnunarinnar J.D. Power and Associates leiðir í ljós að bílarnir eru betri nú en en þeir hafa nokkru sinni verið áður. Bestu bílarnir í Bandaríkjunum nú eru ættaðir frá Japan og Þýskalandi.
J.D. Power hefur undanfarin 24 ár gert viðamikla rannsókn á gæðum og áreiðanleika bíla
sem kallast Vehicle Dependability Study. Í nýjustu rannsókninni sem nú hefur verið birt, eru eigendur þriggja ára gamalla bíla spurðir um hvernig bíllinn hefur dugað á árinu 2012, hvað hefur bilað í þeim og hvernig og hversvegna. Úr niðurstöðunum er svo unnið þannig að bílum er gefin PP100 einkunn (Problems experienced per 100 vehicles). Þessi einkunn sýnir svart á hvítu áreiðanleika hverrar bílategundar. Því lægri sem þessi PP100 einkunn er, þeim mun betri er bíllinn.
Í það heila tekið sýnir rannsóknin nú að árið 2010 hefur verið gott bílaár og skilað bandarískum neytendum góðum og traustum bílum því að PP100 talan hefur aldrei verið jafn lág að meðaltali síðan þessar rannsóknir hófust árið 1989, eða 126. Á síðasta ári var þetta meðaltal 132 fyrir bíla sem byggðir voru á árinu 2009.
Rannsóknin nú nær til 31 bílategundar. Af þessum 31 tegund reyndist 21 hafa batnað milli ára. Lexus skipar efsta sætið annað árið í röð. Besta einstaka bílgerðin í ár er Lexus RX með 57 bilanir á hverja 100 bíla. Þetta er í fyrsta sinn sem jeppi/jepplingur nær þeim árangri.
Þegar horft er til tegunda þá koma á eftir Lexus tegundinni Porsche, Lincoln, Toyota og Mercedes. Svo virðist sem þessi nýjasta áreiðanleikakönnun J.D. Power hafi aflífað gömlu goðsögnina um það að neytendur skuli forðast algerlega nýjar gerðir bíla vegna þess að þá hrjái frekar hverskonar "barnasjúkdómar" en aðrar gerðir sem ekki eru nýjar af nálinni. Könnunin nú sýnir nefnilega að nýjstu gerðir eru síður bilanagjarnar en eldri gerðir sem ýmist eru óbreyttar frá 2009 eða hafa undirgengist minniháttar breytingar. Bílar sem einungis minni háttar breytingar höfðu verið gerðar á milli ára fengu að meðaltali PP100-einkunnina 133 en alveg nýjar gerðir hins vegar aðeins PP100-einkunnina 116. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt sést í áreiðanleikakönnunn J.D.Power.