Árið 2008 er slæmt - 2009 verður hræðilegt!
Samkvæmt rannsókn sem J.D. Power hefur gert á horfum í bílasölumálum í Bandaríkjunum er ekki bjart framundan. Árið í ár stefnir í að verða eitt hið versta um langt skeið með einungis 13,6 milljón nýja bíla selda á móti 16,7 milljónum bíla í fyrra. Og enn verra verður það á næsta ári. Þá munu seljast 13,2 milljónir nýrra bíla samkvæmt spá JD Power.
Bílasölur í Bandaríkjunum lepja dauðann úr skel um þessar mundir enda er bílasala ein sú minnsta í manna minnum. Þrjár meginástæður þessa ástands teljast vera langvarandi erfiðleikar á lánamarkaði, ofurhátt eldsneytisverð og svo heims-efnahagskreppan sem kom í ofanálag við fyrrnefndu þættina.
Því er stundum haldið fram að í kreppuástandi sé ekki rétt að mála skrattann á vegginn meir en efni standi til, en í þetta sinn telur JD Power það lítt duga að hughreysta með tali um að botninum sé náð og leiðin geti aðeins legið upp á við úr þessu. Því miður sé það ekki svo. Botninum sé ekki enn náð – vont eigi enn eftir að versna.
Til viðbótar við dræma sölu hefur meðalverð nýrra bíla lækkað sem gerir afkomu bílasalanna og –framleiðendanna enn verri. Tiltölulega dýrir stórir pallbílar og jeppar sem kostuðu í kring um 40 þúsund dollara seljast nú verr en nokkru sinni fyrr. Þeir sem áður fengu sér slíka bíla kaupa nú í vaxandi mæli meðalstóra fólksbíla sem kosta 25- 30 þúsund dollara. Af þeim sökum hefur söluhagnaður af hverri seldri einingu lækkað í ofanálag við færri seldar einingar.