Árið 2017 það versta þegar horft er til alvarlegra slysa og dauðsfalla
Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að nýliðið ár var eitt versta árið í umferðinni hér á landi þegar horft er til alvarlegra meiðsla og dauðsfalla. Þetta kemur fram í viðtali við Ólaf Guðmundsson, tæknistjóra EuroRap á Íslandi en það er Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sem sér um framkvæmd EuroRap á Íslandi.
EuroRap eru samtök 29 bifreiðaeigendafélaga í jafnmörgum löndum Evrópu. Samtökin voru stofnuð 1999 að frumkvæði FIA, alþjóðasamtaka bifreiðaeigenda.
Fram kemur í Fréttablaðinu í umfjöllun um málið að þegar saman er lagður fjöldi þeirra sem létust eða slösuðust alvarlega voru það ríflega 200 manns, þar af létust 16. Fjórðungi fleiri létust í umferðinni í fyrra en að meðaltali síðustu tíu árin.
Samkvæmt nýrri úttekt EuroRAP á slysamestu vegum landsins á árunum 2009 til 2014 varð helmingur 462 alvarlegra slysa á vegarköflum sem telja 551 kílómetra. Á vegarköflum á höfuðborgarsvæðinu, sem samtals telja 194 kílómetra, urðu 100 alvarleg umferðarslys á umræddu árabili, eða um fimmtungur allra alvarlegra slysa.
Umfjöllunina í Fréttablaðinu má nánar lesa hér.