Árið 2018 var að mörgu leyti gott ár í umferðinni á Íslandi
Árið 2018 var að mörgu leyti gott ár í umferðinni á Íslandi. Flestir mælikvarðar batna frá árinu áður sem aftur var að mestu leyti betra en árið 2016. Árið 2016 var hins vegar sérstaklega slæmt ár í umferðinni og samanburður við árin þar á undan er ekki sérlega hagstæður fyrir árið 2018. Fjöldi látinna árið 2018 var 18 manns og eru nú komin fjögur ár í röð þar sem fjöldi látinna er 16-18 en árin þar á undan var fjöldi látinna iðulega minni. Þetta kemur fram í skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á Íslandi 2018.
Þó skal því haldið til haga að síðustu tíu ár (2009-2018) létust 133 í umferðinni á Íslandi en árin tíu þar á undan (1999-2008) létust 229. Því má segja að 96 mannslíf hafi bjargast á síðustu tíu árum eða u.þ.b. tíu á ári. Fjöldi látinna hækkar úr 16 í 18 á milli ára en að öðru leyti sjáum við fækkun hvað varðar fjölda slasaðra. Alvarlega slösuðum fækkar úr 189 í 183 (3%) og sjáum við því örlitla fækkun í fjölda alvarlega slasaðra og látinna samtals; úr 205 í 201. Lítið slösuðum fækkar einnig, úr 1182 í 1088.
Í skýrslunni kemur fram að heildarfjöldi slasaðra minnkar því úr 1387 í 1289 á milli ára eða um 7%. Við samanburð við önnur lönd þarf ætíð að notast við fjölda látinna m.v. höfðatölu. Fjöldi slysa og slasaðra er ekki raunhæfur samanburður í dag og skýrist það bæði af mismunandi skilgreiningum á meiðslum og mismunandi umfangi skráningar (og þá mismikilli vanskráningu). Samanburður við hin Norðurlöndin sýnir að árangur Íslands er ekki góður þetta árið. Erum við með flesta látna m.v. höfðatölu á Norðurlöndunum fjórða árið í röð en fyrir árið 2015 gerðist það síðast árið 2006.
Árið 2018 létust 18 einstaklingar í 15 slysum, 12 karlmenn og 6 konur eða stúlkur. Af þessum 18 sem létust voru 9 Íslendingar, 6 erlendir ferðamenn og 3 erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis og létust því jafnmargir Íslendingar og erlendir ríkisborgarar.
Einn karlmaður lést vegna ölvunaraksturs en enginn lést vegna fíkniefna. Af fimmtán banaslysum áttu karlmenn sök að máli í fjórtán tilfellum. Tveir létust í þéttbýli en sextán í dreifbýli. 11 af 18 látnum voru 36 ára eða yngri. Tólf létust í fólksbílum, fjórir í sendibílum (þ.á.m. tveir í svokölluðum camper), einn í hópferðabíl og einn á sexhjóli að því fram kemur í skýrslunni.