Asbest í japönskum bílum
25.01.2005
Samkvæmt frétt í Ingeniøren, tímariti danskra verkfræðinga hafa japönsku bíla- og farartækjaframleiðendurnir Suzuki, Toyota, Nissan, Mitsubishi og Yamaha viðurkennt að hafa frá 1996 og fram í desember á síðasta ári notað asbest í einhverjar af þeim einingum sem bílar þeirra eru settir saman úr. Talið er að um sé að ræða samtals 1,64 milljónir bíla. Ekki er komið á hreint hvort einhverjir þessara bíla hafa yfirleitt verið seldir í Evrópu.
Danska vinnueftirlitið brást mjög skjótt við þessari frétt og krafðist útskýringa frá innflytjendum bílanna og heimtaði að málið yrði rannsakað. Algert bann er í Danmörku og raunar í öðrum ríkjum Evrópusambandsins á innflutningi og notkun á öllu sem inniheldur asbest vegna þess hve efnið er eitrað og mikill krabbameinsvaldur.
Samband japanskra bílaframleiðenda hefur gefið þær skýringar að asbest hafi verið notað í pakkningar og þéttingar og þá blandað saman og bundið við önnur efni, aðallega plast og ýmis gerviefni. Því sé engin hætta á að asbestið losni og geti haft heilsuspillandi áhrif.
Engu að síður gæti málið haft slæm áhrif á gengi japanskra bíla að mati blaðsins ef í ljós kemur að bílar með asbesti hafa verið seldir í Danmörku. Suzuki mun hafa verið hvað stórtækastur í þessari notkun efnisins en það er sagt vera í rúmlega einni milljón bíla af tegundinni. Suzuki hefur verið mest selda bifreiðategundin í Danmörku undanfarið og því mikið í húfi. Tíðindin komu innflytjandanum í Danmörku algerlega á óvart og setti hann sig strax í samband við höfuðstöðvarnar í Japan til að fá upplýst hvort einhverjir bílar með asbesthlutum hafi slæðst til Danmerkur. Samkvæmt frétt Ingeniøren hefur hann verið fullvissaður um að svo sé ekki.
Samkvæmt frétt blaðsins hefur asbest á því tímabili sem um ræðir verið notað í 1,01 milljón Suzukibíla, 177 þúsund Nissan bíla og 27 þúsund Toyota bíla.