Asíu- og amerískir bílar komu best frá örggysprófunum Euro NCAP

Evrópska öryggisstofnunin, Euro NCAP, sem er sameign bifreiðaeigendafélaganna í Evrópu hefur sett fram lista yfir öruggustu bíla sem prófaðir voru árið 2022. Athygli vekur að ekki er að finna bíl sem framleiddur er í Evrópu. Þeir bílar sem komu best út úr öryggisprófunum koma frá Asíu og Bandaríkjunum.

Euro NCAP gefur út á hverju ári út lista yfir öruggustu bílana innan hvers flokks. Krafan er að bílarnir þurfa að skora hátt í öllum flokkum. Öryggi fyrir fullorðna, öryggi fyrir börn, öryggi fyrir viðkvæma vegfarendur og rafræn hjálpartæki  þurfa að vera fyrir hendi til að komast á listann. Þegar þetta er haft til hliðsjónar mun það líklega koma mörgum á óvart að evrópskar bílagerðir eru ekki í fremstu röð hvað þessa öryggisþætti áhrærir. Aftur móti koma tvær lítt þekktar kínverskar bílategundir mjög vel út úr prófunum sem og bandarískir bílar.

Þegar litið er á niðurstöðurnar sigraði Hyundai Ioniq 6, í flokki stórra fjölskyldubíla. Í flokki lítilla fjölskyldubíla er hinn kínverski Ora Funky Cat efst á palli. Þessi tegund hefur lítið sem ekkert haslað sér völl á evrópskum markaði en niðurstaða árekstrarprófsins gæti orð til þess að einhver bílaumboð hefji innflutning á  þessari tegund bíla.

Tesla er efst í tveimur flokkum - Model S er best í flokki Executive Cars, en Model Y er besti lítill torfærubíllinn. Kínverska bílategundi Wey Coffee 01 tekur efstu sætin sem sigurvegari stórra bíla í torfæruflokknum.

Fyrstu árekstrarpróf Euro NCAP voru framkvæmd fyrir 26 árum síðan.  Á þessum  árum hefur Euro NCAP gefið út og birt yfir eitt þúsund öryggisúttektir og árekstrarprófað á þriðja þúsund bíla.  Áætlað er að varið hefur verið hátt í 200 milljónum  Evra í verkefnið með það að markmiði að auka öryggi bifreiða í umferð. Sannanlega hafa öryggisúttektir Euro NCAP stóraukið öryggi vegfarenda og áætlað er að yfir 80.000 mannslíf hafi bjargast vegna öryggisþróunar ökutækja á liðnum 26 árum.

Fyrstu árekstrarprófin leiddu í ljós alvarlega öryggisbresti í söluhæstu fjölskyldubílum Evrópu.  Þessar niðurstöður höfðu fljótlega veruleg áhrif á markaðinn. Bílaframleiðendur voru þvingaðir til að fara í grundvallar naflaskoðun á hönnun ökutækja með öryggi og björgun mannslífa í fyrirrúmi. Markmiðið var og er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum. Í dag eru 9 af hverjum 10 nýjum bílum á Evrópumarkaði árekstrarprófaðir og með öryggiseinkunn frá Euro NCAP.

Mynd: Í flokki lítilla fjölskyldubíla er hinn kínverski Ora Funky Cat efstur á palli..