Ástand veganna og efnanotkun í veggklæðningu
Vegblæðingamálið mikla hefur verið að vinda upp á sig og viðbrögð Vegagerðarinnar sem ábyrgð ber á vandanum verða æ fálmkenndari og einkennilegri. Viðtal morgunþáttarins Í bítið á Bylgjunni í morgun (23. janúar) við upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar var hreint ekki til að bæta um fyrir stofnuninni. Fulltrúinn var greinilega móðgaður fyrir hönd stofnunar sinnar og kenndi einkum veðurfarinu um vandann.Heyra má viðtalið hér.
Upplýsingafulltrúinn var í viðali þessu einkum að „svara“ málefnalegri gagnrýni Ólafs Kr. Guðmundssonar hjá Euro RAP fyrr í þættinum. Í svörum upplýsingafulltrúans var hins vegar fátt sem varpað gæti ljósi á vandann og hversvegna hann hefur verið að koma upp æ ofan í æ mörg undanfarin ár. Það eina sem hann og þar með væntanlega yfirstjórn Vegagerðarinnar kaus að gefa upp var að veðurfar og umhleypingar væru trúlegast sökudólgurinn í samspili við söltun, hálkuvarnir og umferð. En auðvitað vita tæknimenn og yfirstjórn Vegagerðarinnar betur. Hversvegna telja þeir sig þurfa að grípa tll hálfsannleika og útúrsnúninga? Veðurfar á Íslandi þarf engum að koma í opna skjöldu og síst af öllu vegagerðarmönnum. Og vitanlega vita Vegagerðarmenn ágætlega hvað þeir hafa verið að gera og hvernig.
Á vef Vegagerðarinnar er nefnilega að finna fyrirlestur sem einn af verkfræðingum stofnunarinnar hélt á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar árið 2010. Fyrirlesturinn heitir Lífolía – Bindiefni til klæðninga. Þar er lýst aðferðum við að halda tjörunni, sem er það efni sem bindur saman grjótmulning, sem lengst fljótandi frá því að tjörunni er sprautað á vegyfirborð eða þar til mulningnum er dreift ofan á sem minnst storknað tjörulagið. Tjaran og mulningurinn valtast síðan saman við tjöruna sem síðan storknar og bundið slitlag myndast.
Til að halda tjörunni nógu lengi óstorknaðri var lengst af notað white-spirit eða terpentína sem síðan gufaði upp að mestu og þá harðnaði bikið í nýju klæðningunni. Terpentínan er nú talin bæði dýr og umhverfislega óæskileg og því hefur Vegagerðin verið undanfarin ár að gera tilraunir með lýsi, repjuolíu o.fl. Það skyldi þó ekki vera að hinn gríðarlega vanda nú megi að einhverju leyti rekja til þessara tilrauna!
Í fyrrnefndum fyrirlestri verkfræðingsins frá 2010 segir m.a. þetta um tilraunirnar:
„Fyrstu þrjátíu árin var notað bindiefni sem er blanda biks og Whitespirits, fyrst með 18% og þá 82% bik. Árið eftir var þetta komið niður í 15 %, síðan 13, þá 11 og ennþá nota whitespiritmenn 9-11% .
White spirit er skaðlegt umhverfinu og óhollt til innöndunar. Þess vegna var gerð tilraun með vistvænna whitespirit en það þótti ekki sérlega fýsilegt. Whitesprittinu fylgja einnig önnur vandamál. Þótt yfirleitt gangi lagnirnar vel og vegir fái ný og traustvekjandi slitlög koma kaflar þar sem steinarnir tolla ekki í bikinu. Heilu flekkirnir og jafnvel heilu yfirlagnirnar tapa öllu steinefninu. Menn hafa brugðist við þessu með því að auka bindiefnismagnið allt upp í 50% meira en reiknað var með að væri hæfilegt. Samt tapast steinefni og hættan á blæðingum eykst að sama skapi. Í sól og hita vöktuðu vegagerðarmenn kafla sem voru ný lagðir en ekki síður þá kafla sem höfðu verið lagðir að hausti. Þeir blæddu undantekningarllítið næsta vor og ef það gerðist mátti búast við að blæðing héldi áfram næstu sumur. Lausnin var að sanda þessa kafla en sandurinn í blæðingunni býr til mauk sem verður óstöðugt til frambúðar. (Leturbr. FÍB).
Rigningablæðingar voru stórskelfilegar. Þetta voru verstu martraðir vegagerðarmanna á því tímabili þegar klæðningar voru lagðar með white spirit blönduðu biki. Og loks er svo vetrarblæðingar.“
Þessir gallar eru ástæðan fyrir því að farið var að nota repju og nú sjávarlífolíu. Blæðingarnar hafa kostað milljónir í þrifum á bílum og skaðabótum til vegfarenda á hverju ári. Þar til repjuolían var tekin í notkun. Síðan þá hefur ekki verið borguð króna vegna blæðinga.“
Þetta segir þessi verkfræðingur sem nú mun hættur störfum hjá Vegagerðinni. En skyldi hafa reynst innistæða fyrir fögnuði hans yfir lífrænu olíunum sem hann fagnaði svo mjög? Það er hreint ekki víst. Hverjir þessara blæðandi vega nú eru með slitlagi sem inniheldur lýsi og repjuolíu? Það vitum við ekki og það hefur Vegagerðin ekki séð ástæðu til að upplýsa.
Nauðsynlegt er að óháð rannsókn á þessum málum hefjist sem fyrst því að ástand veganna eins og það er nú er einfaldlega óþolandi. Miðað við í hvert óefni er komið er algerlega fráleitt að leyfa Vegagerðinni einni að rannsaka sjálfa sig og sín vinnubrögð Til að byrja með þarf að upplýsa það hvaða vegi og vegarkafla er um að ræða og hvaða efni voru notuð við klæðningu þeirra, hvernig var að verkum staðið og hverjir unnu þau.
Þvínæst þarf að rannsaka þátt söltunar og hálkuvarna sem Vegagerðin sjálf vill gera mikið úr nú. Hverskonar salt hefur verið notað? Er það að einhverju leyti endurnýtt salt úr fiskvinnslu? Eru einhver efni í því, t.d. lýsi sem ganga í samband við lýsið eða repjuolíuna í klæðningunni? Neytendur eiga skýlausa kröfu á skýringum.