Ástandið algjörlega óásættanlegt
Það hefur ekki farið framhjá ökumönnum að ástand gatna á höfuðborgarsvæðinu og raunar víða um land er mjög slæmt. Á þessum árstíma kemur í ljós hversu alvarlegt ástandið er og víða er ekki brugðist við skemmdum vegum og holum í tæka tíð. Fyrir vikið verða bifreiðaeigendur fyrir miklum óþægindum og í mörgum tilfellum hafa bílar orðið fyrir tjónum sem ekki fást bætt. Í langflestum atvika hafa dekk skemmst og undirvagnar bifreiða orðið fyrir tjóni.
Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, að uppi á borðum félagsins séu mál þar sem bifreiðaeigendur hafa orðið fyrir tjóni sökum slæms ástands gatna og vega og ábyrgð hefur verið hafnað. Runólfur segir ástandið óásættanlegt og í raun óþolandi að standa andspænis þessu ár eftir ár. Þó sé jákvætt að veghaldarar hafi gripið fyrr inn í en áður með ábendingum til að koma í veg fyrir meiri skaða en orðinn er.
Ljóst er að mikil vinna blasir við að laga skemmdir og koma ástandi gatna og vega í viðunandi ástand. Runólfur Ólafsson segir að finna verði út hvers vegna þetta ástand skapist á hverju ári og hver ábyrgð yfirvalda sé. Ljóst er að niðurskurður til viðhalds og framkvæmda sé glöggt að koma í ljós og hafi valdið því að ökutæki hafa í mörgum tilfellum orðið fyrir stór tjóni. Þetta ástand komi niður á umferðaröryggi sem sé óásættanlegt með öllu. Í hruninu hafi verið tekið meðvituð ákvörðun um niðurskurð til vegamála og viðhalds í vegakerfinu. Fyrir vikið blasa vandamálin og ber ástand gatna og vega þess glöggt vitni um allt land.
Vegagerðinni hafa borist hátt í 100 tilkynningar um tjón vegna holuaksturs það sem af er árinu en allt árið 2015, sem var metár, bárust alls 338 tilkynningar.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) býður upp á snjallsímaforrit (app) sem veitir vegfarendum tækifæri með einföldum hætti til að koma upplýsingum um holur í götum og vegum til veghaldara. Tilgangur FÍB með holu-appinu er að auka öryggi vegfarenda í umferðinni og draga um leið úr tjónakostnaði bíleigenda og samfélagsins í heild. Hér ásamt fleiri upplýsingum er hægt að nálgast Holu appið
Ábendingarnar geta varðað ýmislegt sem viðkemur viðhaldi á eignum borgarinnar eða hreinsun, svo sem holur í malbiki, laus brunnlok, sködduð umferðarmerki, lausar hellur, yfirfullar ruslatunnur, trjágróður sem hindrar för, skemmda bekkir, óþrifnað, snjóhreinsun, bilaðir ljósastaurar eða annað sem tengist þjónustu í borgarlandinu.
Ábendingakerfið er tengt verkstjórnarkerfi hverfamiðstöðvanna og er því besta leiðin til að koma ábendingum áleiðis.