Átak gegn svifryki skilar víða árangri
Eins og borgarbúar urðu varir við var stillt og þurrt veður á höfuðborgarsvæðinu í febrúar, mars og það sem af er apríl og mæltist styrkur svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs hár auk þess sem há gildi komu fram í mælingum á styrk brennisteinsvetnis. Undir kringumstæðum sem þessum er brýnt að þeir sem eru viðkvæmir í öndunarfærunum forðist útivist í nágrenni stórra umferðaæða.
Ekki bætir úr skák að götur borgarinnar eru skítugar eftir veturinn. Þá vaknar sú spurning með hvaða hætti Reykjavíkurborga vinnur eftir til að hreinsa göturnar í þeim tilgangi m.a. að sporna við svifrykinu. Borgaryfirvöld segjast nota hvert tækifæri sem gefst til að hreinsa og koma þannig í veg fyrir svifryk. Þetta sé erfitt viðureignar en ekki er hægt að þvo göturnar þegar frost er.
Yfirvöld í Evrópu og annars staðar í heiminum standa mörg hver frammi fyrir sama vanda. Sum staðar hefur gengið vel að sporna við svifryki með miklu átaki en ljóst er að þessari vinnu lýkur aldrei og ekki megi slá slöku við.
Átak í Stuttgart sýnir jákvæð áhrif
Stórt átak hefur verið í gangi í þýsku borginni Stuttgart við hreinsun gatna. Átakið stóð yfir í um fimm vikna skeið í mars og apríl á sl.ári. Eftir þessa hreinsun kom glögglega í ljós að hún hafði áberandi jákvæð áhrif og styrkur svifryks fór niður úr öllu valdi.
Hreinsunin fór fram á næturnar og var beitt háþrýstiþvottavélum á götur og gangstéttar.Til að fá betri vísbendingar um áhrif göturyks á fínt ryk hefur verið ákveðið að framkvæma nýja rannsókn sem nær yfir lengra tímabil og mun hún verða framkvæmd yfir köldustu mánuði ársins í Þýskalandi. Eftir þá rannsókn er vonast eftir betri og skýrari mynd á þessu áhugaverða verkefni.
Yfirvöld í Calgary í Kanada hafa náð mjög góðum árangri í baráttu sinni við svifrykið og er borgin talin ein sú hreinasta í heimi. Adeleide í Ástralíu, Honolulu, Minneapolis og japanska borgin Kobe hafa ennfremur náð umtalsverðum árangri. Svissneska borgin Zurich þykir einnig skara framúr á þessu sviði.