Athugasemdir FÍB við kílómetragjald á notkun allra ökutækja
Stjórnvöld hafa kynnt áform um kílómetragjald á bensín- og dísilbíla, til viðbótar við kílómetragjald á raf- og tengiltvinnbíla. Sama gjald er áformað á hvern ekinn kílómetra á alla bíla undir 3,5 tonnum, óháð orkugjafa. Fyrir þyngri ökutæki er hugmyndin að gjaldið fari stighækkandi miðað við þyngd þeirra.
FÍB er fylgjandi þeirri meginhugsun að bíleigendur greiði í samræmi við afnot af vegakerfinu. Kílómetragjald er einföld leið til þess. Aftur á móti telur FÍB ekki sanngjarnt að sama gjald sé tekið af léttum sem þungum fólks- og sendibílum, þ.e. bílum undir 3,5 tonnum.
Í fyrsta vinnur það gegn loftslagsmarkmiðum stjórnvalda að sama kílómetragjald sé tekið af akstri neyslugrannra bíla og eyðslufrekra bíla.
Þá er þetta flata gjald neikvætt fyrir konur. Fram kemur í áformaskjali stjórnvalda að gera megi ráð fyrir að áhrifin séu almennt til hækkunar fyrir konur og lækkunar fyrir karla þar sem bifreiðar í eigu kvenna eru almennt á eyðsluminni en bílar í eigu karla.
Rökin fyrir einu og sama gjaldinu á bíla undir 3,5 tonnum eru þeir bílar valdi svipuðu sliti og niðurbroti vega, meðan þyngri bílar hafi margfalt meiri áhrif. Það á einkum við um undirlag vega. Aftur á móti gefur auga leið að 3,5 tonna bíll slítur yfirborðinu meira en helmingi léttari bíll, ekki síst bílar á nagladekkjum. Rásir í malbiki á fjölförnum þjóðvegum í þéttbýli bera þess merki.
Ef stjórnvöld áforma að kílómetragjald endurspegli raunveruleg afnot vegakerfisins og vinna í leiðinni að loftslagsmarkmiðum, þá væri réttara að fara þá leið sem FÍB benti á í mars 2023 - að gjaldið taki mið af þyngd og orkugjafa hvers og eins bíls.
Hugsunin á bak við áform stjórnvalda um kílómetragjaldið
Áformin eru til umsagnar í samráðsgáttinni og stefnt að því leggja fram frumvarp um málið á haustþingi. Stjórnvöld vilja meina að fjárhagslegur hvati verði áfram til orkuskipta. Samhliða upptöku kílómetragjalds á alla bíla á að hækka kolefnisgjald á bensín- og dísilbíla verulega og það á að innheimta áfram með seldum eldsneytislítrum frá dælu.
Markmið stjórnvalda
Stefnt er að eftirfarandi markmiðum með kerfisbreytingunum:
- Koma á auknu jafnræði og sanngirni í gjaldtöku vegna notkunar á vegakerfinu óháð orkugjafa.
- Tryggja ríkissjóði sjálfbæra tekjuöflun af ökutækjum til framtíðar í því skyni að treysta forsendur fyrir fjármögnun á uppbyggingu og rekstri vegakerfisins.
- Auka gagnsæi í gjaldtöku í samræmi við notkun ökutækja á vegum landsins.
- Byggja upp einfalt og notendavænt gjaldtökukerfi ökutækja.
- Samræma gjaldtöku með innleiðingu á einu kerfi fyrir alla gjaldtöku.
- Aðlögun að orkuskiptum og að framtíðarþróun, m.a. með álagningu kolefnisgjalds á mengandi ökutæki.
Ekki kemur fram hver upphæð kílómetragjalds á fólksbíla eigi að vera né við hvaða þyngdarstuðla eða margfeldi verði miðað vegna ökutækja umfram 3,5 tonn.
Hvaða breytingar verða á bensín- og dísilgjöldum?
Verði áformin að lögum falla eftirfarandi gjöld niður sem nú eru innheimt með seldum bensín- og dísilolíulítrum frá dælu. Almennt vörugjald á bensín sem í dag er 33,70 krónur á lítra og sérstakt vörugjald á bensín sem er 54,30 krónur á lítra. Ofan á þessi bensíngjöld leggst virðisaukaskattur þannig að samanlagt ætti bensínlítri að lækka um 109,10 krónur. Á hvern dísilolíulítra er í dag lagt olíugjald, gjaldið er 75,40 krónur á hvern lítra og ofan á það leggst virðisaukaskattur. Samanlagt ætti því dísilolíulítrinn að lækka um 93,50 krónur.
Boðað er að kolefnisgjald á bensín og dísilolíu hækki án þess að nefna krónutölu eða prósentuhækkun. Kolefnisgjald á bensínlítra er í dag 11,70 krónur og 13,45 krónur á dísillítra.
Sama kílómetragjald á alla fólksbíla
FÍB telur réttlætismál að taka ekki mið af þyngd fólksbíla og léttari bíla vegna álagningar kílómetragjalds. Það er ljóst að bensín- eða dísilbíll sem vegur 1 tonn borgar í dag mun lægri bensín- og dísilgjöld heldur en bíll sem vegur 3,5 tonn. Bíll sem eyðir 5 lítrum af bensíni að meðaltali borgar í dag bensíngjöld með vsk 5,50 krónur á ekinn kílómetra. Bíll sem eyðir 15 lítrum af bensíni borgar 16,40 krónur í bensíngjöld á hvern kílómetra. Þungi eyðslufreki bíllinn borgar 300% hærri bensíngjöld á hvern kílómetra í dag. Nái áformin fram um eitt gjald á alla bíla með leyfða heildarþyngd 3.500 kg. eða minna fram að ganga þá verður það veruleg mismunum gagnvart eigendum neyslugrennri bíla og gagnvart umhverfismarkmiðum stjórnvalda.
Marfeldi vegna þyngdar?
Fróðlegt verður að sjá endanlega útfærslu á boðuðum stighækkandi gjöldum á ökutæki yfir 3.500 kg. Væntanlega getur það verið stórpólitískt gagnvart íbúum á landsbyggðinni og atvinnulífinu. Það er óumdeilt að niðurbrot vega margfaldast með þyngd ökutækja.
Aðhald með verðlagningu olíufélaganna
Við búum við fákeppni og háa álagningu á íslenska olíumarkaðnum. Ef skattar á bensín lækka um yfir 100 krónur þá þarf að tryggja að það skili sér í vasa neytenda og hafi ekki þau áhrif að olíufélögin auki enn við álagningu sína. Til þess að fylgja þessu eftir verða stjórnvöld að veita olíufélögunum sterkt aðhald og í versta falli setja fram regluverk til að hindra ofurálagningu á eldsneytismarkaði.