Athugasemdir við hlaðinn varnarvegg til móts við Miklatún

Eins og komið hefur fram hefur Vegagerðin ákveðið að fjarlægja ákveðna tegund girðinga meðfram umferðargötum á höfuðborgarsvæðinu eftir banaslys á Miklubraut sl. laugardag. Í slysinu kastaðist maður út úr bíl og hafnaði á girðingu sömu gerðar og Vegagerðin ætlar að fjarlægja.

Varnarveggir, sem settir hafa verið hafa ekki verið árekstrarprófaðir, og eru ekki vottaðir. Ólafur Kr. Guðmundsson, tæknistjóri alþjóðlegu vegaöryggissamtakanna EuroRap á Íslandi sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda sér um framkvæmd á, sagði í fréttatíma Ríkissjónvarpsins veggina geta verið stórhættulega.

Í viðtalinu við Ólaf á RÚV gerir hann athugasemdir við öryggi vegfarenda víðar á Miklubraut og þá alveg sérstaklega á kaflanum til móts við Miklatún þar sem framkvæmdir hafa staðið yfir frá því í vor. Ólafur gerir sérstaklega athugasemdir við hlaðinn varnarvegg sem reistur hefur verið. Þetta sé bara hleðslugrjót sem er sett inn í vírbala. Þetta er ekki viðurkennt sem árekstrarvæn vara.

Viðtalið við Ólaf Kr. Guðmundsson í sjónvarpsfréttatíma RÚV má sjá hér http://www.ruv.is/frett/varnarveggir-hvorki-vottadir-ne-profadir