Átta gata hljóð úr útvarpinu
Einhverntíman var það sagt um mjög góða sölumenn að þeir gætu selt eskimóum ísskápa. Eitthvað í ætt við þetta er búnaður sem evrópskt bílablað segir að seljist ágætlega um þessar mundir og fullyrða má að ekki nokkur maður hafi minstu þörf fyrir, í það minnsta ekki gagn.
Búnaðurinn nefnist Virtual Motor og virkar þannig að þegar kveikt er á honum kemur vélarhljóð í útvarpið í bílnum sem er eins og í meiriháttar ökutæki. Hægt er að velja í milli ýmissa hljóðtegunda eins og t.d. hljóðs frá sex strokka loftkældri Porsche vél með tveimur túrbínum, eða þá hljóðinu í Formúlu eitt bíl, eða átta gata kvartmílutryllitæki. Vélarhljóðið í útvarpinu er í beinum takti við snúning vélarinnar í bílnum og ökulag bílstjórans þannig að inni í litlu Súkkunni eða Míkrunni er hægt að láta drynja í eins og um sé að ræða landsins aflmesta bíl.
Auðvelt er að tengja búnaðinn við útvarpið, t.d. um ISO- eða USB-innstungu. Búnaðurinn er einnig tengdur við snúningshraðamæli bílsins þannig að gervivélarhlóðið verður í beinum takti við snúning vélarinnar á hverjum tíma.