Átti að einangra höfuðborgarsvæðið?

Þjóðinni hefur verið sagt með reglulegu millibili í fréttum að  samkomulag sé nánast í höfn milli ríkisins og lífeyrissjóðanna um að sjóðirnir fjármagni ákveðnar vegaframkvæmdir með rúmlega 30 milljarða framlagi. Þetta fé verði greitt til baka á þann hátt að sérstakt hlutafélag eða –félög verði stofnuð sem síðan endurheimti framlög lífeyrissjóðanna og vexti af þeim með því að innheimta veggjöld. Lagaheimild til að stofna þessi félög rann hljóðalaust gegn um alþingi nýlega.

http://www.fib.is/myndir/CheckpointCharlie.jpg
Checkpoint Charlie milli A. og V. Berlínar. Vilja menn eitthvað
svona kringum Höfuðborgarsvæðið?

En nú hafa veður skipast í lofti. Viðræðunum sem ítrekað voru sagðar á lokastigi hefur nú verið sltið. Þar með hlýtur botninn að vera dottinn úr hugmyndum um svonefnd vegahlutafélög og vegatollainnheimtu.

FÍB gerði alvarlegar athugasemdir við þessar hugmyndir allar, bæði um vegahlutafélögin og vegatollainnheimtuna. Með hvorutveggja hefði verið vikið með róttækum hætti frá þeirri aðferð sem alla tíð hefur verið viðhöfð um fjármögnun vegaframkvæmda og vegaviðhhalds á Íslandi og sátt hefur ríkt um. Hún er sú að innheimta vegafé með sköttum á bifreiðaeldsneyti. Eldsneytisskattar og aðrir skattar sem lögð eru á farartæki og umferð á Íslandi eru um þessar mundir með því hæsta sem gerist nokkursstaðar. Rúmur helmingur þess verðs sem neytendur greiða fyrir eldsneyti á bifreiðar sínar eru skattar. Þeir skattar fara þó aðeins að hluta til vegaframkvæmda. Það má því með réttu segja að umferðin sé þegar búin að borga fyrir þessar fyrirhuguðu vegaframkvæmdir.

Að taka upp viðbótarskattheimtu í formi veggjalda væri stórfellt frávik frá eldsneytisgjaldafyrirkomulaginu sem sátt hefur ríkt um alla tíð. Sátt hefur ríkt þótt deilt hafi verið um upphæð eldsneytisskattanna. Upptaka vegatolla á tiltekna vegi í ofanálag við núverandi eldsneytisskatta og aðra notkunarskatta er slík og þvílík megin stefnubreyting að það hlýtur að þurfa að spyrja þjóðina fyrst hvort hún sé því samþykk eða ekki. Það hefur ekki verið gert og stóð víst aldrei til.

En til viðbótar, þá var þessi kúvending ríkisvaldsins sem nú er komin í uppnám, líka sérlega ámælisverð fyrir þær sakir að ætlunin var að leggja viðbótarskatta í formi vegatolla á umferð inn og út af höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Ekki á umferð annarsstaðar á landinu. Hugmyndin um að hluti kostnaðar við Vaðlaheiðargöng yrði innheimtur með veggjöldum eru annars eðlis, þar sem þar hefðu vegfarendur haft val um aðra greiða leið. Athyglisvert er að fyrri hugmyndir um að hlutafélag fjármagnaði  Vaðlaheiðargöng svipað og Hvalfjarðargöngin, hafa löngu verið lagðar á hilluna. Þess í stað átti einhverskonar heimahlutafélag að fjármagna framkvæmdina að hluta á móti ríkinu.

 Það átti semsagt að skattleggja suma landsmenn en suma ekki. Spyrja má hvort það hafi verið ætlunin að einangra höfuðborgarsvæðið. Átti borgin ekki lengur að vera höfðuborg alls landsins og landsmanna allra? Hvað voru menn að hugsa í þessu?

Einkafjármögnun og –framkvæmd í vegamálum og gjaldtaka af umferð á hraðbrautum er vissulega þekkt í löndunum í kring um okkur, t.d. Frakklandi. Þar er þess þó alltaf gætt að fólk hafi valkost. Vilji það ekki greiða vegtoll, t.d. af akstri utan af landi til höfuðborgarinnar Parísar er þjóðvegurinn þó alltaf ókeypis valkostur. Hvaða valkost áttu þeir hafa sem hefðu ekið nýju vegina t.d. milli Hveragerðis og Reykjavíkur, Keflavíkur og Reykjavíkur eða Borgarfjarðar og Reykjavíkur og milli Hveragerðis og Selfoss? Engan! Ekki nokkurn einasta.

Umræða um þetta stóralvarlega mál hefur verið furðu lítil og Kristján Möller talsmaður þess hefur gætt þess vandlega þegar hann hefur verið spurður, að vaða elginn um aðra hluti eins og nýja tækni, gervihnattavöktun á vegakerfinu og gjaldtöku af umferð með slíkri tækni. Þá hefur hann einnig látið vaða á súðum um öruggari vegi sem ætlunin sé að leggja að og frá höfuðborginni og stillt málum þannig upp að þeir sem andmæli veggjöldunum séu um leið fjandmenn aukins umferðaröryggis. Óþarft er að tíunda hversu merkilegur svona málflutningur er.

Svo er annað í þessu: Hugmynd Kristjáns og stuðningsliðs hans í þessu máli öllu hefur verið sú að leggja 2+2 veg milli Reykjavíkur og Selfoss. Umferðarþungi á þessari leið er það lítill (þótt núverandi vegur sé orðinn full afkastalítill) að hún réttlætir enganveginn 2+2 veg. Ekki einusinni Keflavíkurvegurinn þyrfti að vera 2+2 vegur.

Nær væri því að legga alvöru 2+1 vegi út frá borginni. Þeir eru fyllilega jafn öruggir og 2+2 vegir og munu duga fyllilega fram til þess dags að íbúar Selfoss verða 500 þúsund og Reykjavíkur 1,5 milljónir. Með þessu myndi sparast stórfé og hin meinta réttlæting fyrir vegatollum verða að engu gerð.