Áttræðir Skódar

Margir muna sjálfsagt enn þá tíma á síðari helmingi 20. aldarinnar þegar Skoda var einskonar safnheiti yfir mjög ódýra og á stundum ekki of vandaða bíla. Skódarnir og aðrir austantjaldsbílar voru hluti vöruskiptaverslunar við ríkin austan Járntjalds, gjaldeyrir var skammtaður og við þessar aðstæður voru Skódar og aðrir austantjaldsbílar nánast einu nýju bílarnir sem almenningur gat fengið keypta.

http://fib.is/myndir/Skoda-Monte-Carlo.jpg
Skoda Popular-Monte Carlo.
http://fib.is/myndir/Skoda-Rapid.jpg
Skoda Rapid Sport.
http://fib.is/myndir/Skoda-Superb-gamall.jpg
Skoda Superb.

Þeir Skódabílar sem hér voru algengastir upp úr 1950 og fram til 1965 voru fyrst og fremst Skoda Popular og nýrri afleiður hans eins og Skoda 1202 (Blöðruskódinn), Skoda Octavia o.fl. Hönnun þessara bíla var í grundvallaratriðum sú sama. Vélin var fremst og drif á afturhjólum. Undirvagninn var stórt rör eftir miðjum endilöngum bílnum. Fremst á rörinu greindust tveir kjálkar sem hjólabúnaður, vél og gírkassi var fest á. Aftast var drifið skrúfað á rörið og út frá því gengu hjólásarnir og fjöðruðu á þverfjöður. Bílarnir voru því „innskeifir“ óhlaðnir, það er að segja að afturhjólin hölluðu út að ofanverðu en inn á við þegar bíllinn var fullhlaðinn.

Þessi hönnun á burðarvirki bíla er í rauninni frá árunum milli fyrri og síðari heimsstyrjalda og var þá talsverð nýjung. Fyrstu þrjár Skoda-gerðirnar sem byggðar voru á þennan hátt eiga hvorki meira né minna en 80 ára afmæli um þessar mundir. Þær eru smábíllinn Skoda Popular, millistærðarbíllinn Skoda Rapid og stóri lúxusbíllinn Skoda Superb en allir komu þeir fram 1934 og slógu samstundis í gegn og urðu hver um sig meðal eftirsóttustu bíla í Evrópu.

Fjögurra manna bíllinn Skoda Popular varð vinsælastur þessara þriggja bílgerða. Hann birtist fullskapaður í febrúar árið 1934 og sló strax í gegn og bar þannig nafn með rentu (popular/vinsæll). Hann var léttbyggður og ódýr miðað við bíla þess tíma og sama er að segja um tveggja sæta sportútgáfu hans sem nefndist Skoda Tudor. Vélin var í fyrstunni 903 rúmsm. 18 hestafla en síðar sama ár kom aðeins stærri vél sem var 995 rúmsm og 20 hö. Árið 1937 kom síðan alveg ný og byltingarkennd vél í þessum bílum. Hún var topventlavél og öflugri en áður – 27 hestafla og réði við að koma bílnum á 100 km hraða sem þá þótti ekki neitt smáræði. Á árunum sem á eftir komu fóru vélarnar svo stækkandi. Skoda Superb var síðan stór lúxusbíll og vinsæll hjá þjóðhöfðingjum stórforstjórum og kvikmyndastjörnum í Evrópu millistríðsáranna

Á árunum 1934-1947 þóttu Skodabílar skera sig nokkuð úr bílum samtímans fyrir það hversu áreiðanlegir þeir væru. Það voru ekki síst vélarnar sem þóttu vera í nokkrum sérflokki fyrir það hversu vel þær dugðu. Þetta sýndi sig vel þegar sjö ungar manneskjur tóku sig til vorið 1934 og óku frá Tékkóslóvakíu til Kalkútta í Indlandi. Þangað komst fólkið eftir 11 þúsund kílómetra akstur án þess að bílarnir biluðu nokkurn skapaðan hlut á leiðinni. Og árið 1936 lögðu bandarísk hjón að nafni Elstner upp í Ameríkuleiðangurinn -100 dagar í smábíl. Smábíllinn var Skoda Popular. Þau enduðu í Mexíkó eftir þessa 100 daga og 25 þúsund kílómetra akstur án teljandi bilana og vandamála. Loks má nefna að Skoda Popular Sport varð í öðru sæti í sínum flokki í Monte Carlo kappakstrinum í janúar árið 1936 og í 12. sæti yfir heildina.

Millistærðarbíllinn Skoda Rapid kom einnig fyrst fram árið 1934. Upphaflega vélin í Rapid var 1195 rúmsm og 26 hestöfl en fljótlega bættust fleiri gerðir við til að velja í milli. Sú sem vinsælust varð var 1386 rúmsm og sú aflmesta var 2,2 lítra.

Skoda Rapid þótti einnig áreiðanlegur og þolinn. Sú þolraun sem sögulegust þótti var þegar framkvæmdastjóri hins tékkneska systurklúbbs FÍB; Břetislavova Prohazka, ók árið 1936 Skoda Rapid ásamt félaga sínum Kubias umhveris jörðina. Leiðin lá um Rússland og Persíu, yfir indversku eyðimörkina, gegnum Kína og þar um borð í skip til Bandaríkjanna. Þá óku þeir yfir þver Bandaríkin til New York um borð í skip sem flutti þá til meginlands Evrópu á ný. Þar var bíllinn enn ökufær og óku þeir frá borði og síðan heim til Tékkóslóvakíu.