Atvinnuþjófarnir velja dýru bílana
Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) hefur kannað hvaða bílar það eru sem oftast er stolið í Þýskalandi. Flestir bílaþjófnaðir eiga sér stað í landamæraborgunum og greinilegt er að þjófarnir sækja mest í dýra bíla og groddaleg verkfæri eins og kúbein eru ekki þau tól sem þeir nota heldur háþróaður rafeindabúnaður.
En þróunin í þessum bílaþjófnaðarmálum hefur verið í rétta átt því að undanfarin 20 ár hefur bílaþjófnuðum í Þýskalandi fækkað um rúm 80 prósent – úr 105.500 tilvikum á ári niður í 18.800. Svipaða sögu er að segja frá Svíþjóð en árið 1993 var 61.141 bíl stolið í Svíþjóð en 15.287 árið 2013. Þetta er þakkað sífellt háþróaðri þjófavarnarbúnaði sem hefur gert bílstuldi erfiðari. En „atvinnumenn“ í bílþjófnuðum hafa hins vegar ekki látið deigan síga, heldur eflt þekkingu sína og komið sér upp háþróuðum rafeindabúnaði og einbeitt sér síðan að því að stela dýru bílunum og aka þeim svo út úr landi. Þær borgir og bæir þar sem flestum bílum er stolið eru nærri austurlandamærum Þýskalands – borgum og bæjum sem áður voru innan alþýðulýðveldisins Austur Þýskalands.
Allgemeine Zeitung segir að af hverjum þúsund BMW X6 sé 22 stolið, af hverjum þúsund BMW X5 sé 15 stolið og sömuleiðis sé 15 af hverjum þúsund Lexus bílum stolið. Hlutfallstölur stolinna bíla miðað við skráða lækka eftir því sem bílarnir eru ódýrari en mest seldu og þar með algengustu tegundirnar í Þýskalandi vega eðli málsins samkvæmt hátt í heildarmengi stolinna bíla. Volkswagen og Audi eru þannig algengustu bíltegundirnar í Þýskalandi og þar af leiðir að flestir þeir bílar sem hverfa eru einmitt af þeim tegundum.