Audi A1 – til höfuðs Mini
Nýr smábíll, Audi A1 er nú fullprófaður og tilbúinn í fjöldaframleiðslu. Þessi nýi bíll verður frumsýndur í sinni endanlegu mynd á bílasýningunni í Genf 4.-14 mars nk. Honum er ætlað að höfða sérstaklega til ungs fólk með bærileg fjárráð, það er að segja sama markhóps og Mini, BMW 1, Alfa MiTo og hinn nýi Citroen DS sem við sögðum frá í frétt í fyrradag hér á vef FÍB. Sala á bílnum hefst á næstunni og til Skandinavíulandanna kemur hann í maímánuði. Hvort þessi bíll sé, fremur en aðrir nýir og áhugaverðir bílar, sé væntanlegur inn á hinn botnfrosna íslenska nýbílamarkað er óvíst, í bili í það minnsta.
Nýr Audi A1. Umhverfismildur smábíll. |
Mikil fjölbreytni í innréttingum og búnaði. |
Þessi nýi Audi A1 hefur verið talsvert lengi í bígerð. Fyrst sást hann á bílasýningunni í Tokyo árið 2007 sem hugmyndarbíllinn Metroproject Quattro – með bensínvél sem dreif framhjólin og rafmótor sem dreif afturhjólin. Árið eftir var bíllinn sýndur á Parísarsýningunni og hét þar A1 Sportback Concept og enn sem tvinnbíll. En nú var rafmótorinn kominn fram í og dreif framhjólin ásamt bensínvélinni og tölva stjórnaði samvinnu vélanna tveggja.
En nú er bíllinn fullskapaður og verður sýndur í Genf í næsta mánuði sem þrennra dyra hlaðbakur. Hann er 395 sm langur, 174 sm breiður og 142 sm á hæð. Lengd milli hjóla er 247 sm sem þýðir að hann er lítilsháttar stærri en Mini, en lítillega styttri og lægri en Alfa Romeo MiTo. Farangursrýmið tekur 267 lítra en til samanburðar er stærð þess í Mini 160 lítrar.
Í því lesefni sem Audi hefur sent frá sér um þennan nýja bíl er ekkert minnst á tvinntækni né heldur um fjögurra dyra útgáfu, en efalaust á hvorttveggja eftir að koma fram síðarrmeir. Mikið er hins vegar greint frá þeim aukabúnaði sem fáanlegur verður í bílinn, búnaði eins og hljóm- og fjarskiptatækjum, innréttingum og efnisvali í innréttingum. Greinilegt er að höfða á mjög til ungs fólks með þessum nýja bíl, ekki síst ungra kvenna.
Audi A1 er sá minnsti og léttasti í Audi bílafjölskyldunni en þyngdin byrjar í 1.045 kílóum. Tvær gerðir bensínvéla og tvær gerðir dísilvéla verða í boði í fyrstunni, allar með túrbínu og beinni strokkinnsprautun eldsneytis. Minni bensínvélin nefnist 1,2 TFSI. Aflið er 86 hö, vinnslan er 160 Nm við 1.500 sn./mín. Hún eyðir 5,1 l/100 km, CO2: 119 g/km. Viðbragðið 0-100 km/klst: 12,1 sek, hámarkshraði er 179 km/klst. 5 gíra handskipting.
Stærri bensínvélin nefnist 1,4 TFSI, 122 hö, vinnslan er 200 Nm við 1.500 sn./mín. Eyðslan er 5,4 l/100 km, Viðbragð 0-100 km/h: 9,2 sek og hámarkshraðinn er 200 km/klst. 6 gíra handskipting eða sjö gíra S-tronic sjálf-/handsk.
Minni dísilvélin er 1,6 TDI, 90 hö. Vinnslan er 230 Nm við 1.500 sn./mín. Eyðslan er 3,8 l/100 km, CO2: 99 g/km. Viðbragð 0-100 km/h: 12,2 sek. Hámarkshraði 179 km/klst. 5 gíra handskipting.
Stærri dísilvélin er líka 1,6 TDI. Hún er 105 hk, vinnslan er 250 Nm við 1.500 sn./min. Eyðslan er 3,9 l/100 km. Viðbragðið 0-100 km/h er 10,8 sek. og hámarkshraðinn er 187 km/klst. 5 gíra handskipting.
Allar vélarnar eru með sjálfvirkum búnaði sem drepur á vélinni þegar stöðvað er og ræsir hana aftur þegar aka skal af stað.
Þegar bíllinn rennur (fríhjólar) hleðst rafmagn inn á rafgeyminn. Það þýðir minna álag á rafalinn og þar með minni eldsneytiseyðslu. Þegar bíllinn er ræstur kaldur streymir enginn kælivökvi um vélina í fyrstunni. Þannig á olían að hitna fyrr og vélin er fljótari að ná upp fullum smurningi á slitfleti sína. Þetta bæði dregur úr kaldræsisliti og eldsneytiseyðslu.
Að öllu samanlögðu er því uppgefni eyðsla Audi A1 3,8 til 5,4 á hundraðið og CO2 útblásturinn sömuleiðis í lágmarki. Minni bensínvélin t.d. gefur frá sér 119 g af CO2 á kílómetrann og minni dísilvélin 99 grömmum. Hvorttveggja er undir þeim mörkum (120 g) sem skilgreina bíla í flokk umhverfismildra farartækja.