Audi eignast mótorhjólaverksmiðju
Samningar hafa náðst milli Audi og eigenda ítölsku mótorhjólaverksmiðjunnar Ducati. Audi eignast nú Ducati og greiðir 860 milljónir evra fyrir. Tæplega 200 milljóna evra hluti kaupverðsins er yfirtaka skulda að því er segir í Reutersfrétt um viðskiptin.
Ferdinand Piech stjórnarformaður VW, sem Audi er hluti af, er sérlegur áhugamaður um Ducati mótorhjól og eigandi eins slíks. Piech er barnabarn Ferdinands Porsche, stofnanda Porsche og sem stjórnarmaður þess fyrirtækis bauðst honum að kaupa Ducati fyrir tæpum 30 árum og eignast, eins og Piech sagði sjálfur við þýskt bílatímarit árið 2008, fyrirtækið sem byggði mótorhjólið Ducati Panigale 1199. Panigale 1199 er það ofurhjól, að sögn Piech, sem státar af kraftmesta fjöldaframleidda tveggja strokka mótor á jörðinni.
Frá því árið 1988 hafa Ducati mótorhjól unnið 13 heimsmeistaratitla í kappakstri ofurhjóla. En þótt Ducati sé fyrirferðarmikið á kappaksturssviðinu fer ekki mikið fyrir því á heimsmarkaðnum. Ársframleiðslan er 40 þúsund mótorhjól. Til samanburðar þá er ársframleiðsla stærsta mótorhjólaframleiðandans sem er Honda, yfir 16 milljón hjól.
Fjármálakreppa heimsins hefur komið mjög niður á mótorhjólaframleiðslunni í heiminum sem hefur skroppið saman um helming frá árinu 2008 og engin merki um bata sjáanleg enn, að sögn talsmanns mótorhjóladeildar BMW við Reuters fréttastofuna. Í flestum iðnríkjunum eru mótorhjól fyrst og fremst dýr lífsstíls- og leiktæki fremur en að þau séu samgöngutæki til daglegra nota. Við hönnun og framleiðslu þeirra er aðaláherslan á afl, viðbragð og hraða en síður á sparneytni. En einmitt sparneytni og umhverfismildi er boðorð dagsins í bílaframleiðslunni. Meðalöflug og öflug mótorhjól eru því flest eyðslufrekari en flestir nýir bílar af millistærð og þaðanaf minni.