Audi ryðgar minnst

Ný norræn rannsókn á ryðsækni bíla afhjúpar að slæmar ryðskemmdir geta komið fram í nýlegum bílum þótt á heildina litið hafi bílar batnað hvað þetta varðar. En tegundirnar eru mis ryðsæknar og þær bílategundir sem best standa sig gagnvart ryðinu eru Audi, Volvo og Saab. Sömuleiðis hafa bæði Citroen og Renault batnað frá síðustu rannsókn sem gerð var. Hyundai kemur verst út úr rannsókninni að þessu sinni og sömuleiðis fá bæði Ford og Mercedes slaka einkunn. Þetta kom fram á blaðamannafundi hjá FDM í Lyngby fyrir síðustu helgi þar sem rannsóknin var kynnt.
Rannsóknin leiðir í ljós að alvarlegar ryðskemmdir hafa komið fram á nýjum eða nýlegum bílum sem framleiðendur hafa lítt eða ekki hirt um að ryðverja. Hún leiðir einnig í ljós að þeir bílar sem vel og sómasamlega eru verksmiðjuryðvarðir endast miklu betur og eru að mestu ryðfríir eftir sex ára notkun á norrænum götum og vegum.
Rannsóknin er unnin hjá Svenska Korrosioninstitutet upp úr gögnum sem safnað er í löndum Skandinavíu og hafa samskonar rannsóknir verið gerðar um árabil. Safnað er saman tilteknum yfirbyggingahlutum úr annarsvegar þriggja ára gömlum bílum og hins vegar sex ára gömlum bílum. Hlutarnir eru síðan rannsakaðir til þess að finna út úr hverskonar stálblöndum þeir eru gerðir, hvernig þeir eru hannaðir og lagaðir, hvernig þeir hafa verið ryðvarðir og hversu mikil eða lítil tæringin í þeim er. Tæknistjóri FDM í Danmörku, Per Antvortskov sagði að það gleðilega væri við rannsóknina nú að hún sýndi að bílar hefðu batnað mikið hvað varðar ryðsækni frá því að FDM hóf að taka þátt í þessum rannsóknum fyrir fjórum árum. „En það er sannarlega hægt að gera enn betur. Það á ekki síst við um kóresku bílana,“ sagði Antvortskov.
Rannsóknin náði til 25 vinsælla bílategunda og –gerða og var gerð að frumkvæði FDM og fleiri norrænna bifreiðaeigendafélaga og bílaframleiðenda. Niðurstöðurnar eru taldar mjög marktækar fyrir bæði bifreiðaeigendur en einnig bílaframleiðendur sem nýta sér þær í stöðugt ríkari mæli. Þeir gera sér góða grein fyrir því að vel unnar rannsóknir sem þessar benda eindregið til þess hverskonar hönnun og efnisnotkun og eftirmeðferð er árangursríkust gegn ryðinu. Hvernig einstakar bílategundir og –gerðir komast frá þessari rannsókn má sjá af töflunum sem fylgja þessari frétt.
The image “http://www.fib.is/myndir/Rostligan.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
The image “http://www.fib.is/myndir/Rostligan-00_01_0.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.