Audi tekur á því
Audi hefur verið að ráða fjölda verkfræðinga í nýjar stöður. Þegar árið er á enda, verða 500 nýjar stöður verkfræðinga mannaðar. 300 þeirra eiga að vinna einvörðungu við að hanna og þróa rafbíla. Sérstök þróunardeild hefur verið stofnuð til að safna og halda utanum alla tækniþekkingu um rafbíla og miðla henni innan Volkswagewn samsteypunnar. Meðal þess sem þróunardeildin og rafmagnsverkfræðingarnir eiga að fást við er það hvernig heyrast skuli í rafbílum.
Ofursportbíllinn e-tron sem Audi sýndi á bílasýningunni í Frankfurt í september í fyrra vakti mjög mikla athygli og nú hefur verið ákveðið að byggja eittþúsund bíla seríu af e-tron árið 2012. Þá verður einnig byggð í fáeinum eintökum frumgerð minni bíls. Allir þessir bílar verða einskonar tilraunabílar samkvæmt fréttatilkynningum frá Audi.
Á hinn bóginn er sterkur orðrómur meðal þeirra sem fylgjast með þessum málum að væntanlegur sé rafknúinn sportbíll sem sennilega fái gerðarheitið R4. Þessi bíll verði ekki ósvipaður sportbílnum Audi TT eins og hann er nú, en minni og eitthvað ódýrari líka.
En fleira er á döfinni hjá Audi og staðfest er að unnið er að þróun rafknúinnar útgáfu hins nýja Audi A1 sem á að fara í fjöldaframleiðslu eftir ca. þrjú ár. Þessi rafbíll er eiginlega fjöldaframleiðsluútgáfa þeirrar A1 e-tron frumgerðar sem sýnd var á bílasýningunni í Genf sl. vor. Hún var með 102 hestafla rafmótor og rafgeyma sem dugðu til 50 km aksturs á hleðslunni. Í bílnum var rafstöð sem tók við þegar lækka tók á geymunum, en hún var knúin af litlum Wankelmótor. Samanlagt drægi bílsins á rafgeymum og meðan eldsneytið entist á rafstöðinni var 200 kílómetrar.
Eitt af því sem tæknimenn Audi fást við er að skapa sérstakt hljóð frá bílunum. Þetta hljóð á að vera algerlega sérstakt og einkennandi fyrir Audibíla og auðþekkt. Menn vilja að rafbílarnir hafi líka sitt eigið hljóð, en þegagr rafbílar eiga í hlut þarf að búa hljóðið sérstaklega til og koma fyrir einhverskonar hátalara svo að aðrir vegfarendur, ekki síst gangandi og hjólandi heyri í rafbílunum nálgast.