Aukið öryggi með breikkun Suðurlandsvegar
Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ, áformar að tvöfalda Suðurlandsveg (1) frá vegamótum við Bæjarháls að Hólmsá ofan Reykjavíkur. Lagður verður 2 + 2 vegur og tengingum fækkað frá því sem nú er. Gerðir verða nýir aðskildir reið-, hjóla- og göngustígar. Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi allra fararmáta og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg með því að aðskilja akstursstefnur.
Birt hefur verið tillaga að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar Suðurlandsvegar frá Bæjarhálsi að Hólmsá.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að framkvæmdinni verði skipt í að minnsta kosti fimm áfanga. Fyrstu tveir áfangarnir falla undir samgöngusáttmála en þeir snúast um tvöföldun vegarins með tvöföldum hringtorgum við Breiðholtsbraut og Norðlingavað.
Mikilvægar stígatengingar eru við Suðurlandsveg, þá sérstaklega á kaflanum framhjá Rauðavatni. Sá kafli er mikið notaður af hjólafólki, hestafólki og gangandi. Stefnt er að því að aðskilja göngu-, hjóla- og reiðstíga til að auka öryggi allra vegfarenda sem um stígana fara.
Ný akbraut verður lögð að mestu norðan núverandi vegar. Við vegamót Breiðholtsbrautar er landrými takmarkað og einnig er þrengt að vegsvæði við Rauðavatnsskóg. Á þeim vegkafla verður lagður vegur með þröngu þversniði. Suðurlandsvegur liggur síðan á bökkum Bugðu (Hólmsár) austan Norðlingaholts á svæði sem að stórum hluta hefur verið raskað með ýmsum framkvæmdum. Tenging við Heiðmörk verður aðlöguð að tvöföldum vegi.
Lögð verður áhersla á að raska ekki ánni og árbakkanum og því verður vegurinn tvöfaldaður til suðurs eftir að vegurinn þverar Bugðu (Hólmsá). Aftur verður breikkun til norðurs eftir að komið er yfir ána í annað sinn.