Aukin umferð á milli vikna
Umferðin í síðustu viku reyndist næri fjórum prósentum meiri en í vikunni þar á undan á höfuðborgarsvæðinu og virðast því áhrif sóttvarnaraðgerða minnka eftir því sem frá líður, a.m.k. hvað umferð varðar. Umferðin er eigi að síður mun minni er í sömu viku fyrir ári og munar þar 16,5 prósentum. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin, í nýliðinni viku eða viku 47, um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, tók kipp upp á við og reyndist 3,8% meiri en í vikunni þar á undan. Þetta er þá önnur vikan í röð þar sem umferð eykst á milli vikna.
Hins vegar ef umferðin, í síðustu viku, er borin saman sömu viku á síðasta ári þá reyndist hún vera 16,5% minni en fyrir ári síðan. Þetta er minnsti samdráttur, sem mælst hefur í þriðju bylgju Covid-faraldursins, sem nú geisar á Íslandi.
Minnst dróst umferð saman á Reykjanesbraut eða um 11,7% en mest um Hafnarfjarðarveg við Kópavogslæk eða um 24%.
Uppsafnaður samdráttur það sem af er nóvembermánuði er 24,4%, svo það er útlit fyrir talsvert minni umferð nú í nóvember borið saman við sama mánuð á síðasta ári.