Aukinn þungi lagður í hreinsun gatna á síðustu dögum
Hreinsun gatna á stofnæðum á höfuðborgarsvæðinu hófst fyrir tíu dögum síðan. Nú hefur aukinn þungi verið lagður í verkefnið á síðustu dögum. Áfram hefur verið haldið að sópa götur á höfuðborgarsvæðinu en nú verður farið í öll hverfin. Ef allt gengur að óskum er stefnt að því að ljúka því verkefni fyrir eða um helgina.
Með hækkandi sól fer af stað hreinsun gatna og stíga á höfuðborgarsvæðinu. Allar stofnbrautir og tengigötur, sem og helstu göngu- og hjólastígar eru allan jafnan hreinsaðar fyrst. Þessar meginleiðir liggja þvert um borgarlandið og njóta því forgangs. Í framhaldi verður farið skipulega um hverfin og húsagötur sópaðar og þvegnar svo framarlega að áfram verði hlýtt og milt í veðri.
Á upplýsingavef Reykjavíkurborgar kemur fram að frá 15. nóvember til 14. apríl er miðbærinn hreinsaður fjóra daga vikunnar. Frá 15. apríl til 15. Nóvember er miðbær Reykjavíkur hreinsaður daglega frá kl. 06.00 til 09.00. Miðbærinn er sápuþveginn að meðaltali aðra hverja viku og tjarnarbakkinn hreinsaður vikulega.