BAIC í Kína vill gamla Saabinn
Reuters fréttastofan greinir frá því að viðræður standi nú yfir milli fulltrúa General Motors Co og kínverska bílaframleiðslufyrirtækisins BAIC, Bejing Automotive Industry Holding Group, sem er það fimmta stærsta í Kína. Viðræðurnar snúast um kaup BAIC á tækjum og búnaði til bílaframleiðslu frá Saab í Svíþjóð. Ef af kaupunum verður, verða tækin flutt í verksmiðjur BAIC í Kína.
Í Reutersfréttinni segir að Beijing Automotive Industry Holding Group hafi lýst því yfir skýrt og skorinort að enginn áhugi sé hins vegar á því að eignast verksmiðjur og starfsemi Saab í Trollhattan í Svíþjóð. Þetta er haft eftir tvennum öruggum heimildum sem ekki vildu koma fram undir nafni.
Kínverjarnir hjá BAIC hafa samkvæmt fréttinni einungis áhuga á að eignast verkfærin, tækin og mótin til að geta framleitt eldri gerðirnar af Saab 9-5 og 9-3 undir eigin nafni og koma þannig fram með bíl sem er sterkur, öruggur, vel hannaður og tæknilega fullkominn. Eins og er framleiðir BAIC bíla af Mercedes og Hyundai gerðum fyrir Kínamarkað.
Framleiðslu á 9-3 og 9-5 hefur verið hætt hjá Saab og verksmiðjan í Trollhattan gerð klár í framleiðslu á nýjum gerðum Saab-bíla. En verði af þessari sölu til Kínverjanna aukast líkurnar á því að bílaframleiðslan í Trollhattan sé nú á síðasta snúningi. Saab starfsemin verði einfaldlega lögð niður og verksmiðjurnar seldar í nokkurskonar partasölu. En heimildamenn Reuters greina líka frá því að samhliða sé GM í viðræðum við aðra aðila sem áhuga hafa á að eignast Saab og halda bílaframleiðslunni áfram. Nú eru einungis um þrjár vikur af þeim mánaðar lífsfresti sem GM gaf Saab í upphafi mánaðarins. Verði ekki nýr kaupandi tilbúinn um næstu mánaðamót til að kaupa og yfirtaka Saab, verður starfsemin stöðvuð og fyrirtækið leyst upp.
Hollenski sportbílaframleiðandinn Spyker Cars hefur lýst yfir áhuga á því að kaupa Saab og sömu sögu er að segja um bandarískt einkafyrirtæki sem nefnist Renco Group og bakhjarl þess, fjárfestirinn Ira Rennert.