Banaslys erlendra ferðamanna á Íslandi
Hryggilegur dauði ungs Svía á Sólheimajökli nýlega og umfangsmikil leit að honum hefur verið nokkurt umfjöllunarefni í fréttum undanfarna daga.
Með fullri virðingu fyrir góðum vilja allra hlutaðeigandi og þeim sem vilja forða því að erlendir ferðamenn láti lífið á Íslandi og kalla nú eftir aðgerðum alþingis og umhverfis- og samgöngunefndar þingsins, þá er óhjákvæmilegt að benda á eftirfarandi:
Nálægt 63 prósent þeirra erlendur ferðamanna sem látist hafa á Íslandi á undangengnum áratug hafa látist í umferðarslysum. Þessi slys hefur oft mátt rekja til annarra aðstæðna en fyrirfinnast í vegakerfum í heimalöndum ferðalanganna, t.d. malarvega, einbreiðra brúa, ónógra og handahófskenndra merkinga kringum framkvæmdir o.fl. Dauðaslys útlendinga á jöklum og í óbyggðum hafa sem betur fer verið fátíð.
FÍB hefur nú um árabil metið slysahættu í íslenska vegakerfinu með stöðluðum aðferðum EuroRAP og kortlagt slysa- og hættustaði og bent á leiðir til úrbóta og hefur safnað upp miklum gögnum og upplýsingum og miðlað þeim til vegfarenda bæði hér heima og erlendis,. Félagið er nú sem jafnan fyrr tilbúið til að miðla þessum upplýsingum til yfirvalda og þeirra sem yfirumsjón fara með umferðar- og slysavarnamálum og er tilbúið til að hitta umhverfis- og samgöngunefnd þingsins af þessu gefna tilefni.
Sé ætlunin að kalla saman fund í umhverfis- og samgöngunefnd alþingis hlýtur að teljast eðlilegt að fundurinn fjalli ekki bara um banaslys erlendra ferðamanna á jöklum heldur líka annarsstaðar, þar með talið á vegum landsins sem hingað til hafa krafist flestra þeirra mannslífa sem glatast á Íslandi.
Grafið hér að ofan er byggt á upplýsingum og slysatölum frá Landsbjörgu sem komu fram í frétt í Fréttablaðinu í morgun um sama efni.