Bandaríkin fá nýjan sérhannaðan lögreglubíl
Margir kannast við hinn dæmigerða bandaríska lögreglubíl – stóran stallbaksfólksbíl af annaðhvort Chevrolet Impala eða Ford Crown Victoria gerðum og einn og einn Chrysler (Dodge) Charger inn í milli. En nú eiga Ford, GM og Chrysler í Detroit von á harðri samkeppni því að fram er kominn bíll sem hannaður er frá grunni sem lögreglubíll. Bíllinn nefnist E7 og er byggður af bílasmiðju í Indiana sem heitir Carbon Motors Corp. og vélin er sex strokka 300 hestafla BMW-dísilvél. Rúmlega 12 þúsund staðfestar pantanir eru þegar komnar í hús en alls er gert ráð fyrir 230 þúsund eintaka sölu af þessum nýja bíl þegar afgreiðsla hefst árið 2013.
E7 er er hugsaður frá grunni sem lögreglubíll. Burðarvirki hans er heil grind (Space frame) og er hún klædd utan með trefjaplastplötum sem auðvelt er að skipta um ef skemmdir verða, t.d. í árekstrum. Hjólabúnaður og hemlar eru, eins og allt í bílnum sjálfum er hannað með það að leiðarljósi að það þoli nánast hvað sem er og bíllinn veiti þeim sem í honum hámarksvernd ef óhapp verður. Þá er allur búnaður sem þarf að vera til staðar í lögreglubílum eins og samskiptatæknibúnaður og hverskonar mælitæki, há- og lágtæknigræjur sem lögreglumenn þurfa að nota í störfum sínum, hannaður inn í bílinn sjálfan frá grunni. Þannig þarf ekki að endurbyggja bílinn að meira eða minna leyti eins og nauðsynlegt er með venjulega bíla sem teknir eru í þjónustu lögreglu.
En þótt þessi nýi bíll sé nú kominn fram ætla Ford og GM ekki að gefast upp baráttulaust. Ford hefur frá 2003 verið að þróa bíl til lögreglubrúks sem leysa á hinn gamla Crown Victoria af hólmi þegar framleiðslan hættir í árslok. Nýi bíllinn er byggður á grunni framhjóladrifins Ford Taurus og GM mun flytja inn sérbyggðan Chevrolet Caprice frá Ástralíu til löggæslunota.
Carbon Motors Corporation hefur verið að þróa nýja lögreglubílinn allt frá árinu 2003 og hefur kallað til þeirrar vinnu mikinn fjölda lögreglumanna þannig að öll þarfagreiningin hefur verið á hreinu frá upphafi. Eitt lítið dæmi um það eru afturdyr bílsins en þær opnast fram á við eins og í Lundúnaleigubílunum þannig að mun auðveldara er að setjast inn í bílinn og ekki síst er auðveldara fyrir lögreglumenn að bjóða handteknum „viðskiptavinum“ sínum til sætis í bílnum.
Lögregluembættin í Bandaríkjunum reka samtals um 450 þúsund lögreglubíla og um það bil 75 þúsund bílar eru endurnýjaðir á hverju ári. Af þessari umsetningu telur fyrirtækið Carbon Motors Corp að fjöldaframleiðsla á sérhönnuðum lögreglubíl sé bara ágætis viðskiptahugmynd. Í þeim sölubæklingum sem fyrirtækið hefur sent öllum lögregluembættum í Bandaríkjunum er lögð áhersla á hversu bíllinn verður margfalt hagkvæmari í rekstri en vegna dísilvélarinnar í stað hinna risastóru V8 véla sem eru í núverandi lögreglubílum. Sá floti allur brennir tæplega sex milljörðum lítra af bensíni á hverju ári en það þýðir að árlegur CO2 útblástur bílanna er um 14 milljón tonn. Með BMW dísilvélinni er gert ráð fyrir því að hægt sé að minnka þessar tölur um minnst 40 prósent að því er segir í sameiginlegri frétt frá BMW og Carbon Motors.
Helstu mál nýja lögreglubílsins eru sem hér segir: Lengdin er ca 5 m, vélin er 3ja lítra, 300 ha með 568 Nm vinnslu. Viðbragðið 0-100 km á klst er 6,5 sek. og hámarkshraðinn er 250 km á klst. Hemlun úr 100 í 0 gerist á ca 38 metrum. Olíueyðsla er 7,8 til 8,4 l á hundraðið.
Helsti staðalbúnaður eru ESC stöðugleikakerfi, baksýnismyndavél og radarsjón sem varpar mynd af veginum upp á framrúðuna fyrir framan ökumann, sjónvarpsmyndavél sem tekur upp allar ferðir bílsins og allt sem í kringum hann er, alltaf þegar hann er í notkun. Framrúðan og yfirbyggingin eru skotheld og sérstök myndavél myndar númeraspjöld bíla og skráir og ber sjálfvirkt saman við bifreiðaskrár og gagnagrunna lögreglu. Blikkljósin eru blá og rauð og eru innbyggð í yfirbyggingu bílsins.