Bandaríkjamenn ánægðir með Hyundai

Í nýrri ánægjukönnun J.D. Power meðal bandarískra bifreiðaeigenda virðast eigendur Hyundai bíla vera tryggastir sínu vörumerki og líklegastir til að kaupa aftur Hyundai. Saab eigendur hafa minnst traust á sínu bílmerki og hafa minnstan hug að því að fá sér aftur Saab og þarf víst engan að undra. Framleiðslan hefur fyrir löngu stöðvast og Saab í miðri gjaldþrotameðferð.  En Volvo fær heldur ekki allt of góða útreið þótt þar á bæ gangi hlutirnir ágætlega og unnið sé hörðum höndum að því að endurheimta það álit sem Volvo hafði á árum áður í Bandaríkjunum sem sterkasta og öruggasta bíltegundin yfirleitt.

http://www.fib.is/myndir/JD_Power_lojalitet.jpg

Hyundai er semsé í efsta sæti hvað varðar tryggð bandarískra bílkaupenda. Næstu bílamerki þar á eftir eru Ford, Honda, BMW, Kia (undirmerki Hyundai) og Toyota. Eins og sjá má á grafinu með þessari frétt, koma vörumerkin mjög misjafnlega út. Bílar sem ekki er hægt með nokkurri sanngirni að segja að séu slæmir, heldur þvert á móti, lenda neðarlega á lista. Dæmi um það eru fyrir utan Saab eru tegundir eins og t.d. Suzuki, Volvo, Jaguar, Lincoln og Porsche. Ekki er t.d. langt síðan Lincoln varð efstur í gæðakönnun J.D. Power.

Þetta snýst því um það að bílaumboðin og -sölurnar komi vel fram við viðskiptavini sína, hvort sem þeir hafa keypt nýjan eða notaðan bíl. Það getur nefnilega orðið dýrt spaug að missa viðskiptavin sem kannski aldrei aftur fær sér bíl af tiltekinni tegund, vegna þess að honum fannst komið fram við sig af ósanngirni og ókurteisi eða varð fyrir vonbrigðum með þjónustuna. En það er líka dýrt að finna nýja viðskiptavinu og sannfæra þá um að kaupa einmitt þessa tegundina fremur en hina og það kann að vera hluti skýringarinnar á því að gæðamerki hafna undir meðaltali í könnun sem þessari.

Þessi ánægjukönnun J.D. Power var gerð meðal bifreiðaeigenda sem höfðu keypt bíla sína nýja og 117 þúsund svöruðu spurningum tímaritsins. Ánægjan með Hyundai var talsvert afgerandi því að 64 prósent eigenda bíla af tegundinni voru ánægðir og gátu hugsað sér að kaupa aftur Hyundai þegar kæmi að endurnýjun.