Bannað að auglýsa sparnað af V-Power
Neytendastofa hefur bannað olíufélaginu Skeljungi að birta auglýsingar þar sem fullyrt er að með því að nota Shell V-Power gætu neytendur sparað 6 kr. þar sem um væri að ræða 2,4% minni eyðsla á lítra. Var tekið fram að auglýsingarnar væru byggðar á mælingum tveggja íslenskra aðila og fóru þær mælingar fram hér á landi.
Olíufélagið N1 kvartaði við Neytendastofu undan auglýsingunum. Þær væru byggðar á ófullnægjandi mælingum tveggja manna sem mælt höfðu eyðslu bíla sinna á sömu ökuleiðum en með mismunandi bensín á tanknum í hvert sinn. Þá væri í auglýsingununm villandi samanburður milli V-Power eldsneytis frá Skeljungi og eldsneytis frá öðrum olíufélögum.
Niðurstaða Neytendastofu er sú að Skeljungur hefði brotið lög með fullyrðingum sínum um 6 kr. sparnað og 2,4% minni eyðslu með notkun Shell V-Power. Taldi Neytendastofa fullyrðingarnar ekki sannaðar og gögn til stuðnings mælingum ekki fullnægjandi. Þá sagði Neytendastofa Skeljung ekki hafa sýnt fram á 6 kr. sparnað með notkun Shell V-Power. Því hefur Skeljungi verið bönnuð birting umræddra auglýsinga. Sjá úrskurð Neytendastofu.