Batnandi umferðarmenning í Bretlandi

http://www.fib.is/myndir/Hradamyndavel.jpg

Tæplega tvær milljónir ökumanna í Bretlandi sem aka of hratt eru gómaðir ár hvert af hraðamyndavélum.  Í Bretlandi er haldin ökuferilsskrá og punktakerfi og þegar ökumenn hafa hlotið 12 refsipunkta missa þeir ökuskírteinið og verða að taka ökupróf upp á nýtt, vilji þeir öðlast ökuréttindi á ný. Árið 2003 voru 1,8 milljónir ökumanna sektaðir á grundvelli gagna úr hraðamyndavélum og árið eftir fjölgaði þeim um 100 þúsund.

Fjölgunin virðist hafa orðið vegna þess að hraðamyndavélum var fjölgað í breska vegakerfinu en ekki vegna þess að ökumenn hafi færst í aukana í hraðakstri – þvert á móti. Í ljós hefur nefnilega komið að þeim ökumönnum sem krækja sér í 12 punkta í ökuferilsskrá og missa ökuréttingin fer fækkandi. Árið 2003 misstu á þann hátt 33 þúsund manns ökuréttindin en 31 þúsund árið eftir.

Þessi þróun hefur haldið áfram síðan og því virðist sem það átak í umferðaröryggismálum sem staðið hefur yfir í Bretlandi undanfarin ár og hófst með EuroRAP-vegrýni AA, systurfélags FÍB, endurbótum á vegakerfinu í kjölfarið og hraðamyndavélum til að halda hraða í skefjum á varasömustu vegarköflunnum sé að skila sér á flestum vígstöðvum, því að alvarlegum umferðarslysum hefur fækkað mjög og almennur skilningur á ábyrgri hegðun í umferðinni aukist. Þetta kemur fram í fréttabréfi AA-Trust, sem er umferðaröryggisdeild AA.

Andrew Howard framkvæmdastjóri AA-Trust segir að svo virðist sem þeir ökumenn sem lentu inn á myndum hraðamyndavélanna hafi lært sína lexíu og ekið varlegar eftir það því að sjalfgæft sé að menn brenni sig aftur á sama soðinu í þessu efni. Þetta megi lesa úr  nýútkominni tölfræði innanríkisráðuneytisins.