Beltabylting hjá Ford
Ný kynslóð fólksbílsins Ford Mondeo er væntanleg á næsta ári. Hann verður búinn nýjum og byltingarkenndum öryggisbeltum við aftursætið – beltum sem verða með innbyggðum loftpúða sem blæs út ef mikið högg kemur á bílinn, á sama hátt og loftpúðar gera.
Nýju loftpúðabeltin eru sérstaklega hugsuð til þess að draga úr höfuð-, háls- og bringumeiðslum sem aftursætisfarþegar verða gjarnan fyrir í árekstrum. Aftursætisfarþegar eru oft börn og eldra fólk, en báðir hópar eru sérstaklega viðkvæmir gagnvart slíkum meiðslum. Ef slys verður springur loftpúðabeltið út og stækkar snertiflöt beltisins við líkamann fimmfalt. Verkfræðingur hjá Ford í Evrópu segir við bílafjölmiðla að víðtækar prófanir hafi farið fram á nýju beltunum og niðurstöður sýni ótvírætt að loftpúðabeltin veiti mun betri slysavörn en hefðbundnu beltin. Í daglegri notkun virka þau hins vegar alveg eins og þau hefðbundnu og líka gagnvart barnastólum og barnasetum. Þá hafi 90% þess fólks sem prófað hefur beltin í reynd að þau séu jafn þægileg í notkun eða þægilegri en hefðbundin belti því þau virki sem vel bólstruð og mjúk að hafa spennt um sig.
Loftpúðabeltin eru reyndar þegar komin í Ford Explorer í Bandaríkjunum en í þeim bíl hafa þau verið fáanleg sem valbúnaður frá 2011. Um 40% kaupenda Explorer bíla hafa valið þessi belti síðan.