Beltin skipa mestu
Norskur læknisfræðiprófessor og einn fremsti sérfræðingur Norðmanna á sviði umferðarslyssa og –slysavarna segir við tímaritið Bil-Norge að enda þótt margskonar öryggisbúnaður hafi komið og sé kominn í bíla, þá séu og verði öryggisbeltin og hnakkapúðarnir alltaf sá öryggisbúnaður sem sem mest og best hindri meiðsl og líkamstjón í árekstrum og útafkeyrslum. Prófessorinn hefur rannsakað umferðarslys og afleiðingar undanfarin ár
Dr. Inggard Lereim, sem myndin er af, hefur undanfarin 30 ár verið formaður sérstaks rannsóknahóps lækna sem fást við umferðarslys og afleiðingar þeirra. Læknarnir hafa m.a. kynnt sér árekstraprófanir bíla og slysarannsóknir bílaframleiðenda og komist að þeirri niðurstöðu að enn séu það öryggisbeltin ásamt hnakkapúðum sem séu mikilvægasti öryggisbúnaður bílanna. Ekkert hafi enn komið í þeirra stað sem verji fólkið í bílnum gagnvart örkumlum og dauða ef slys verður. Lereim segir að eiginlega ættu þó að helst af öllu að vera fjögurra punkta öryggisbelti í öllum bílum (eins og í rallbílum) í stað þriggja punkta beltanna því að þótt þriggja punkta beltin séu góð, þá eru fjögurra punkta beltin enn betri og minni hætta á að fólk losni úr þeim og kastist út ef illa fer.
Aðspurður um hvernir sé hægt að gera enn öruggari bíla segir Lereim nauðsynlegt að stuðarar allra bíla verð í sömu hæð. Slysahættan sem fólgin er í því ef árekstur verður milli tveggja bíla þar sem stuðari annars er mun hærri en stuðari hins, ætti að vera öllum augljós. Þá sé mikilvægt að búa bíla þannig að sem minnstar líkur séu á meiðslum og dauða þeirra sem fótgangandi og hjólandi sem kynnu að verða fyrir bílunum. En hinir „mjúku“ vegfarendur verði líka að huga að eigin öryggi með því að gera sig sýnilegri í umferðinni með endurskinsmerkjum og með viðeigandi búnaði öðrum, eins og hjólreiðahjálmum, góðum mótorhjólafatnaði og hjálmum. Notkun endurskinsmerkja er mjög ábótavant í Noregi sem sést m.a. af því að einungis 13 prósent fótgangandi sem verða fyrir bíl og slasast eru með endurskinsmerki og á þetta við bæði börn sem fullorðna.