Bensín hækkar um áramót vegna skattahækkana
Um næstu áramót mun bensínverð hér á landi hækka um 3,30 krónur á lítra og kemur það til vegna skattahækkana. Þá mun lítrinn af dísilolíu hækka um 3,1 krónur. Þetta kemur fram í útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Vörugjöld á bensín hækka um 2,5% og fara úr 71.45 krónum í 73,25 krónur á lítra. Kolefnisgjald á bensín hækkar um 10% og fer úr 9,10 í 9,95 krónur á lítra.
Þá mun olíugjald hækka um 2,5% og fer úr 61.30 krónum í 62,85 krónur á lítra. Kolefnis á dísilolíu hækkar um 10% og fer úr 9,45 í 10,40 krónur á lítra. Virðisaukaskattur leggst ofan á þessi gjöld.
Samkvæmt útreikningum FÍB, miðað við núverandi útsöluverð og álagningu er búist að bensínverðið fari úr 221,80 krónum í 225,10 krónur á lítra. Dísilolían mun fara úr 225,30 krónum í 228,40 á lítra.
Þess má geta að heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað lítillega í morgun, eftir talsverða lækkun undanfarna daga. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur sem áður lækkað um næstum þriðjung frá því snemma í október sem að mestu leyti stafar af auknu framboði umfram eftirspurn.