Bensínbílar eru agnið
Til að herða frekar á sölu hins rafknúna smábíls, VW e-up! og hvetja til þess að rafbíllinn verði frekar fyrir valinu býður Volkswagen nú þýskum rafbílskaupendum upp á sérstök afnot af bensínknúnum VW bílum.
Margir hafa sannarlega áhuga á því að eignast rafbíl en það sem mest stendur í fólki er einkum tvennt: Hinn rafknúni VW up! er talsvert dýrari en bensínknúinn samskonar bíll. Þá er drægi hans einungis um 150 kílómetrar á hleðslunni sem ekki er nóg til að komast klakklaust milli landshluta.
Til að bæta úr þessum ágöllum, einkum hinum síðarnefnda, þ.e. dræginu, lætur Volkswagen fylgja með í kaupum á VW e-up! frjáls afnot af dísil- eða bensínknúnum Volkswagenbíl að eigin vali í samtals 30 daga á ári þegar aka þarf lengri vegalengdir. Tilboðið gildir fyrstu þrjú árin eftir kaupin á rafbílnum.
Enn sem komið er gildir þetta tilboð einungis í Þýskalandi. Þar vegur hærra verð rafbílsins þyngra en á Íslandi, Danmörku og Noregi svo dæmi sé tekið. Ástæðan er sú að gjöld á nýja bíla eru lág og þau sömu á alla sambærilega bíla í Þýskalandi meðan þau eru mun lægri á rafbíla á Íslandi, Danmörku og Noregi. Hér á landi eru rafbílar eins og VW-up! virðisaukaskattsfrjálsir sem jafnar að nokkru út verðmun hans gagnvart bensín- og dísilknúnum bílum af svipaðri stærð.