Bensínbílar verða dýrari og rafbílar ódýrari
Bensínbílar verða dýrari og rafbílar ódýrari
Þróunin er skýr samkvæmt nýrri frétt bílatímaritsins Auto Motor Sport. Bensín- og dísilbílar verða sífellt dýrari en rafbílar lækka í verði. Rafbílar verða brátt ódýrustu ökutækin.
Það eru nokkrir samverkandi þættir sem gera það að verkum að það er sífellt dýrara að keyra á bensíni eða dísilolíu og ódýrara að keyra rafbíl. Hér á eftir kemur nánari útlistun á því sem byggir á grein úr sænsku útgáfu bílablaðsins Auto Motor Sport.
Hvers vegna verður nýr rafbíll fljótlega ódýrari en samsvarandi útblástursbíll?
- Háar losunar ESB sektir
Í dag er framleiðsla og sala bensínbíla mjög hagkvæm fyrir bílaframleiðendur. Í mörgum tilvikum er um að ræða gamla og þróaða tækni, lítill þróunarkostnaður og ekki þörf fyrir stórar og dýrar drifrafhlöður.
Þrátt fyrir þetta eru bílaframleiðendur viljandi að draga úr sölu á nýjum bensínbílum með því að hækka verð. Margir framleiðendur eru hættir að selja dísilbíla á Evrópumarkaði.
Yfirvofandi eru mögulegar sektir upp á allt að 15 milljarða Evra (um 2.158 milljarðar króna) sem ógna evrópskum bílaiðnaði ef ekki verður dregið úr heildar útblæstri frá ökutækjum núna í ár, 2025. Ástæðan er sú að ESB hefur lækkað viðmiðunarmörk varðandi koltvísýringslosun ökutækja um 15%. Frá og með 2025 er markmiðið að uppsafnaður bílafloti innan ESB losi að meðaltali 93,6 grömm á kílómetra af koltvísýringi (CO2). Nýju losunarviðmiðin eiga að gilda til loka árs 2029.
Árið 2024 seldust 1,4 milljónir rafbíla innan ESB. Til að forðast sektir algjörlega þarf að tvöfalda þá sölu árið 2025, eða selja 2,5 milljónum færri brunahreyfilsbíla á árinu.
Framleiðendur verða að halda niðri sölu á bensín- og dísilbílum m.a. með hærra verði en um leið að bjóða upp á ódýrari rafbíla. Sumir rafbílar í dag eru seldir undir kostnaðarverði til að draga úr refsigjöldum vegna koltvísýrings útlosunar.
- Ódýrari hleðslurafhlöður
Á 15 árum hefur verð á hleðslurafhlöðum lækkað um 90 prósent á kWst. Þetta stafar meðal annars af aukinni skilvirkni og ódýrari hráefnum. Ódýrari járnfosfat rafhlöðurnar (LFP) eru með um 35-40 prósent af markaðnum og búist er við að hlutfall þeirra aukist þar sem gæði þeirra og virkni er á stöðugri uppleið.
Samkvæmt greiningu frá Goldman Sachs mun verð á LFP rafhlöðum verða helmingi lægra árið 2026 samanborið við verðin 2023.
Mat aðila innan bílaiðnaðarins var það að ódýrari rafhlöður gerðu það mögulegt að bjóða nýja rafbíla á sama verði og samsvarandi bensínbíla árið 2025. Það virðist ekki ætla að raungerast en iðnaðurinn telur að það náist árið 2027.
Bílaframleiðendur eru bjartsýnir varðandi aukna sölu rafbíla á seinni hluta ársins 2025 m.a. vegna lægri og hagstæðari vaxta og meira framboðs áhugaverðra rafbíla.
- Loftslagsstyrkir til rafbílakaupa
ESB hefur sett á laggirnar loftslagssjóð sem þeir sem verða fyrir miklum fjárhagslegum áhrifum af grænu umskiptunum geta sótt um styrk hjá. Reglur um styrkveitingar og áherslur verða ákveðnar af hverju aðildarríki fyrir sig innan Evrópusambandsins.
Í Svíþjóð verður áherslan á einstaklinga og fyrirtæki á strjálbýlum svæðum. Þar í landi á að útdeila 800 milljónum sænskra króna árlega í verkefnið.
Í mörgum öðrum ríkjum í Evrópu er verið að setja á laggirnar hvatakerfi til að auka hlutdeild rafbíla á markaðnum.
Hér á landi hefur verið dregið úr niðurfellingu skatta vegna rafbílakaupa og það hefur haft neikvæð áhrif á orkuskipti í samgöngum.
- Stórhækkað verð á bensíni og dísilolíu 2027
Það verður aldrei ódýrara að keyra á bensíni eða dísilolíu innan Evrópusambandsins en í dag. Árið 2027 verða nýjar útblástursreglur ESB (ETS 2) með stórhækkuðu kolefnisgjaldi sem leggst þyngst á eldsneytiefreka bensín- og dísilbíla.
ETS 2 leiðir strax til hærra eldsneytisverðs. Varfærið mat bendir til þess að hækkunin muni nema um 5 sænskum krónum á lítra eða 63 íslenskar krónur. Eftir það er stefnan að hækka verð jarðefnaeldsneytis um 10–20 prósent árlega til ársins 2035.
Samkvæmt frétt Auto Motor Sport í Svíþjóð telja sérfræðingar að verð á eldsneyti þar í landi verði á milli 11,50 og 15,30 sænskum krónum dýrara á lítra árið 2030 samanborið við eldsneytisverð í dag. Þetta gerir 145 til 193 íslenskar krónur.
Hátt verð á bensíni og dísilolíu árið 2027 mun líklega gera þyrsta útblástursbíla minna aðlaðandi og ýta verðinu á þeim niður og einnig mun eftirspurn eftir rafbílum aukast.
Sænska fréttin fjallar ekki um þann möguleika að evrópsk yfirvöld muni grípa til aðgerða til varnar evrópskum bílaframleiðendum á næstu misserum. Margir bílaframleiðendur eru í mjög erfiðri stöðu varðandi það að uppfylla útblástursviðmið Evrópusambandsins. Annað vandamál er sölusamdráttur vegna harðrar samkeppni sérstaklega frá kínverskum bílaframleiðendum. Nánar er fjallað um tolla og samkeppni frá Kína í annarri frétt á FÍB vefnum.