Bensínið hækkar um 8 kr. um áramótin
Um áramótin taka nýjar skattahækkanir á bifreiðar og rekstur þeirra gildi. Þessar hækkanir og þær hækkanir sem áður höfðu dunið yfir á árinu sem er að líða eru það miklar, að miðað við meðalnotkun á meðalstórum fjölskyldubíl þarf heimilið að afla um 100 þúsund krónum meiri tekna á næsta ári en í fyrra, bara til að standa straum af auknum sköttum á rekstur heimilisbílsins.
Sé miðað við óbreytta álagningu olíufélaganna og sama innkaupsverð og er í dag, þá hækkar lítrinn af dísilolíunni um áramótin um sjö krónur og lítrinn af bensíninu um átta krónur. Miðað við meðalakstur meðalstórs heimilisbíls þá aukast útgjöld vegna bensínbílsins um 16 þúsund krónur á ári og dísilbílsins um 14 þúsund krónur.
Virðisaukaskatturinn fer í hæstu hæðir sem þekkjast, eða 25,5 prósent sem auðvitað hefur sín áhrif á rekstur heimilisbílsins. En með hækkun á dísilolíugjaldinu og bensíngjaldinu sem sömuleiðis tekur gildi um áramótin er bætt vel í þær hækkanir sem þegar hafa átt sér stað á árinu sem er að líða. Að öllu samanlögðu þýða framannefndar hækkanir og þær hækkanir sem áður eru fram komnar á þessu ári, að fyrirvinnur heimilanna þurfa að afla um hundrað þúsund króna viðbótartekna til að standa undir öllum þessum auknu álögum á heimilisbílinn, rekstur hans og notkun.