Bensínið komið í 213 kall
Í gær hækkuðu N-1 og Skeljungur eldsneytisverð um kr. 3,50 lítrann og í morgun fetuðu Olís, Atlantsolía og Bensínorkan sömu slóð. Því hafa öll olíufélögin hækkað eldsneytisverðið.
Eftir þessa síðustu hækkun er algengt verð á bensíni í sjálfsafgreiðslu 213 krónur og lítrinn af dísilolíu kostar 214 krónur. Olíufélögin segja skýringuna hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og sterkari dollar gagnvart krónu. Fátt bendir til annars en að verðið haldi áfram að hækka því heimsmarkaðsverðið er stígandi, ekki síst vegna þess að mjög er nú kalt í veðri í bæði Evrópu og N. Ameríku og samtök olíuframleiðsluríkja hafa ekki ljáð máls á því að auka olíuframleiðslu til að slá á hækkanaferlið.
Þá eru skattahækkanir á eldsneyti sem tóku gildi um áramótin enn að koma til framkvæmda. Þær munu leggjast með fullum þunga á lítraverðið um leið og nýjar olíubirgðir berast til landsins.