Bensínið komið upp fyrir 240 króna þröskuldinn
Bensínverðið hækkaði í gærkvöldi og kostar lítrinn nú í dag, 1. apríl, yfir 240 krónur með þjónustu. (Þetta er ekki aprílgabb - því miður).
Þetta er gríðarlega hátt verð fyrir almenning á Íslandi sem nú er orðið láglaunasvæði á evrópskan mælikvarða en þó með eitt alhæsta matvælaverðið í álfunni.
En þegar bensínið hefur nú enn hækkað og það upp fyrir 240 króna þröskuldinn, þá hefur það þau áhrif að neysluvísitalan hækkar enn. Neysluvísitalan er einskonar „hitamælir“ sem mælir ástandið í efnahagskerfinu hverju sinni. Þó er þessi „hitamælir“ þeirrar náttúru að valda meiri hitasótt auk þess að mæla líkamshita hagkerfisins. Það liggur nefnilega þannig í því að þegar vísitalan hækkar, stíga fjárhagslegar skuldbindingar í verði. Þannig verða húsnæðislánin og aðrar skuldbindingar bæði hærri og erfiðari fyrir heimilin og almenning að standa straum af. Lífskjör eru að versna.
Ofurhátt eldsneytisverð hefur þegar haft mikil áhrif á allt daglegt líf fjölda fólks og gert fjöldamörgum mun erfiðara fyrir með að sækja vinnu og þjónustu í fámennu en stóru og strjálbýlu landi, stunda áhugamál sín og rækja tengsl við fjölskyldu og vini. Umferð hefur minnkað mjög og fer áfram minnkandi eins og sjá má af könnunum og af teljurum Vegagerðarinnar. Þetta eru merki um ekki bara stöðnun, heldur afturför á mörgum sviðum þjóðlífsins.
Stjórnvöld sitja aðgerðalaus hjá og hafa ekki svarað einu orði mánaðargamalli skriflegri áskorun FÍB um að lækka eldsneytisskatta tímabundið. Nefnd er sögð komin í málið en frá henni heyrist heldur ekkert.